146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

endurskoðun samgönguáætlunar.

92. mál
[18:53]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er dálítið sérstakt að allir biðja um gamla Jón eftir að hæstv. Jón Gunnarsson ráðherra er orðinn að ráðherra samgöngumála. En ég vil taka undir það með öðrum sem hafa talað að það er óþolandi að ekkert mark sé takandi á samgönguáætlun. Við þingmenn fengum að heyra í kjördæmaviku að það er mikil reiði yfir því að menn viti ekkert hvaða framkvæmdir fara fram á svæði þeirra. Næg eru verkefnin. Ég tek undir með hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur varðandi Vestfjarðaveg 60, að fá að vita eitthvað um þá framkvæmd.

Ég vil líka benda á varðandi hafnarbótamál og Hafnabótasjóð að sveitarfélög eru búin að gera ráð fyrir því í fjárhagsáætlun sinni að koma með mótframlag og taka það frá, síðan kemur í ljós að það er ekki neitt áætlað í þennan málaflokk að neinu gagni. Það voru 700 milljónir á landsvísu sem fóru (Forseti hringir.) niður í 200 milljónir. Þetta eru óásættanleg (Forseti hringir.) vinnubrögð og það að hæstv. ráðherra eigi síðan að dunda sér við það að forgangsraða eftir eigin smekk á heldur ekki að vera boðlegt.