146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

endurskoðun samgönguáætlunar.

92. mál
[18:57]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hér kristallast nú vandamálið okkar. Hér koma hv. þingmenn úr Norðausturkjördæmi, hv. þingmenn Norðvesturkjördæmis, hv. þingmenn Suðvesturkjördæmis, höfuðborgarsvæðisins og segja allir í kór: Ja, ráðherrann getur náttúrlega ekkert raðað svona af því hann setti ekki nógu mikið heim til mín. Um það snýst auðvitað þessi umræða. (Gripið fram í.)14 milljarða (Gripið fram í.) hefði þurft til þess að efna (Gripið fram í.) samgönguáætlun. Við fengum rúma (Gripið fram í.) 4 milljarða, 4,5 milljarða. Það vantar tæpa 10 milljarða upp á. (Gripið fram í: Hvernig ætlar þú að skipta?) Við höfum sest yfir það hvernig því verður dreift. Ég heyri að menn gagnrýna að við skulum hafa sett í gang Krýsuvíkurgatnamót og Reykjanesbraut, sem er almennt viðurkennt að séu einhver hættulegustu gatnamót landsins þar sem ein mesta umferðin fer um. (Gripið fram í.) Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kýs að við gerum þetta allt þannig að við klárum ekkert. Við byrjum sem víðast en klárum ekkert. Höfum þetta allt saman hálfklárað hér og þar. Nei, það verður ekki gert þannig. (SJS: Viltu ekki reyna að svara …?) Það er (Gripið fram í.) ekki þannig að verið sé að gefast upp í þessari stöðu, enda hef ég sett fram hugmyndir um það hvernig við megum undirbúa það að ná miklu meiri fjármunum inn í nýframkvæmdir en við höfum séð. Ég veit ekki hvort það næst sátt um það og niðurstaða um þá leið, en ég er alla vega að undirbyggja vinnu þannig að sá valkostur verði á borðinu.

Samgönguáætlun er í gildi og við erum að forgangsraða innan hennar. Það er ekki rétt sem fram kom að það hafi verið skilgreint í fjárlagafrumvarpinu að Dettifossvegur ætti að klárast, en það er verið að vinna fyrir 350 milljónir í Dettifossvegi á þessu ári. 350 milljónir eru gríðarlega mikið í samanburði við það sem við höfum úr að spila. (Forseti hringir.) Það er (Gripið fram í.) alls staðar veruleg óánægja. (Gripið fram í.) Við erum alls staðar með verkefni sem standa út af borðinu sem kalla, (Forseti hringir.) eins og allt samgöngukerfi okkar, á miklar endurbætur. Það á við um alla landshluta. Það er eðlilegt að fólk sjái þetta svolítið með sínum gleraugum, hver og einn (Gripið fram í.) fyrir sín kjördæmi. En (Forseti hringir.) vandamálið blasir við okkur. Við skulum taka umræðu um það hvernig við getum (Forseti hringir.) sameinast um (Gripið fram í.) að búa til eitthvert kerfi sem leiðir fram kannski (Forseti hringir.) miklu meira (Forseti hringir.) framtak, átak í nýjum framkvæmdum (Forseti hringir.) en við höfum séð á undanförnum árum. (Gripið fram í.)