146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

fjárveitingar til sóknaráætlana landshluta og hlutverk þeirra.

122. mál
[19:05]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Fjárveitingar til sóknaráætlana voru í febrúar 2015 bundnar í samningum við landshlutasamtök sveitarfélaga og gilda þeir samningar til ársloka 2019. Það hafa orðið töluverðar hækkanir frá því gengið var frá samningum árið 2015 en við undirritun samninganna námu greiðslur ríkissjóðs 550,7 millj. kr.

Það er ekki samræmi í þeim tölum sem ég hef fengið upplýsingar um og sem hv. þm. Bjarkey Olsen hefur. Ég veit ekki hvað veldur því en þetta eru þær tölur sem ég hef fengið upplýsingar um að séu bundnar í samningana um sóknaráætlun landshluta.

Árið 2016 hækkaði framlag ríkisins um ríflega 14,5% og nam 630,7 millj. kr. Í ár verða fjárveitingarnar auknar enn frekar eða um tæp 15,9% og nema þá 730,7 millj. kr. Vert er að nefna að í framsetningu fjárlaga er fjármagn til sóknaráætlunarsamninga á fjárlagaliðum tveggja ráðuneyta og á fleiri en einum fjárlagalið. Það gæti skýrt þennan mun.

Sóknaráætlanir eru mikilvægur þáttur í að ná meginmarkmiðum byggðaáætlunar um að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu, þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Í sóknaráætlunum landshluta skal mælt fyrir um svæðisbundnar áherslur sem taka mið af markmiðum byggðaáætlunar, skipulagsáætlunar, menningarstefnu og eftir atvikum annarri opinberri stefnumótun. Markmið samningana er að stuðla að jákvæðri samfélagsþróun, auka samkeppnishæfni hvers landshluta fyrir sig og landsins í heild. Markmið þeirra er jafnframt að einfalda og bæta samskipti ríkis og sveitarfélaga og tryggja gagnsæi við úthlutun og umsýslu opinberra fjármuna. Sóknaráætlanir skiptast í uppbyggingarsjóði sem eru samkeppnissjóðir í hverjum landshluta, að höfuðborgarsvæðinu frátöldu, og áhersluverkefni sem eru sértæk verkefni í hverjum landshluta. Þau geta snert ýmsa þætti til styrktar svæðinu öllu og má í því sambandi m.a. nefna ráðgjafar- og átaksverkefni.

Á árinu 2015 bárust samtals 1.120 umsóknir í alla sjö uppbyggingarsjóðina. Heildarupphæð umsókna var rúmlega 1,6 milljarðar. Alls voru 606 verkefni styrkt, samtals að upphæð 457 millj. kr. Samkvæmt úthlutunarreglum er mótframlag styrkþega að lágmarki sama upphæð og veittur styrkur og því má áætla að um 1 milljarður hafi runnið til umræddra verkefna. Áhersluverkefni á landinu öllu voru 39 talsins og heildarframlag þeirra á sóknaráætlun voru tæpar 222 millj. kr.

Stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál hefur eftirlits- og ráðgjafarhlutverk gagnvart sóknaráætlunarsamningum. Hópurinn er skipaður sérfræðingum úr öllum ráðuneytum og framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga. Áheyrnarfulltrúar eru frá landshlutasamtökum sveitarfélaga og Byggðastofnun. Hlutverk stýrihópsins er m.a. að auka og efla samhæfingu innan Stjórnarráðsins í málefnum er varða byggðamál og tryggja virkt samráð við sveitarstjórnarstigið í málaflokknum. Stýrihópurinn vinnur að því að fá ráðuneytin til að starfa betur saman og koma fram sem ein heild í byggðamálum. Byggðamál eru samkvæmt skilgreiningu stýrihópsins öll þau viðfangsefni sem hafa áhrif á lífsgæði og samkeppnishæfni landshluta, svo sem búsetu, atvinnu og nýsköpun. Þau snúast um eflingu samfélaga, félagsauðs, atvinnulífs, menntunar og menningar, velferðarmála, samgangna og fjarskipta. Mikilvægur þáttur í starfi stýrihópsins er að samhæfa stefnu ráðuneyta er snerta byggðamál og vera ríkisstjórninni til ráðgjafar í byggðamálum.

Virðulegur forseti. Ég held að ekki verði hægt að segja annað en að það skíni í gegn áhersla á að efla þennan þátt, sóknaráætlanir landshluta. Ég held að það sé mjög ánægjulegt. Það hefur í sjálfu sér verið ánægjulegt að fylgjast með hversu þverpólitísk samstaða hefur náðst um þetta mál sem var á sínum tíma pólitískur ágreiningur um. Í dag held ég að við séum öll sammála um það, sama hvar í flokki við stöndum, að þetta sé hin rétti farvegur til að nýta fjármuni sem best úti um hinar dreifðu byggðir. Reynslan af þessu verkefni hefur verið mjög góð.