146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

fjárveitingar til sóknaráætlana landshluta og hlutverk þeirra.

122. mál
[19:09]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil aðeins blanda mér í þessa umræðu. Sóknaráætlanir landshlutana eru mjög mikilvægar fyrir landsbyggðina en þær þurfa að vera fjármagnaðar að fullu. Það þarf miklu meira fjármagn ef þetta á að gagnast. Við þingmenn voru í kjördæmaviku viðstödd greiðslur úr uppbyggingarsjóði. Þar voru miklu fleiri umsóknir en hægt var að mæta og miklu meiri þörf fyrir fjármagn en var hægt að veita þar. Um 70 milljónir voru til skiptanna í hverjum landshluta.

En ég vil líka benda á að sveitarstjórnarmenn hafa lagt mikla vinnu í að rannsaka og koma með tillögur. Hér var skipuð Vestfjarðanefnd á síðasta kjörtímabili um samfélag- og atvinnuþróun á því svæði. Þar lögðu sveitarstjórnarmenn og fleiri mikla vinnu í alls konar tillögugerð sem menn spyrja sig núna hvort sé bara einhvers staðar ofan í skúffu eða hvað eigi að gera með þetta. Á að hafa sveitarstjórnarmenn og aðra að fíflum (Forseti hringir.) með því að leggja mikla vinnu í að koma með tillögur ef það er ekki meiningin hjá fjárveitingavaldinu að fylgja því eftir með neinum hætti? Við verðum bara aðeins að hugsa okkar gang og kalla ekki eftir einhverju ef ekki á að nýta það.