146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

radíókerfi og fjarskiptakerfi.

137. mál
[19:18]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessar spurningar. Það er alveg rétt að orðið hefur vart við auknar truflanir í radíókerfunum okkar. Í frumvarpi til breytinga á fjarskiptalögum sem nýlega var kynnt á vefsíðu ráðuneytisins er m.a. fjallað um breytingar á árgjöldum fyrir notkun á tíðnum. Þar kemur fram að tekjum til Póst- og fjarskiptastofnunar af þessum gjöldum sé ætlað að standa undir kostnaði við truflanavakt í ljósi fyrirséðrar aukningar á fjarskiptatruflunum og á komandi árum vegna aukinnar nýtingartíðni rofsins. En besta leiðin til að minnka áhættu eða hættu á truflunum er að auka á fræðslu um innflutning ólöglegra tækja, þ.e. tækja sem ekki eru CE-merkt og fræðslu um rétta uppsetningu endurvarpa.

Í því sambandi má geta þess að fyrir liggur nýleg tilskipun um vottun þráðlauss sendibúnaðar nr. 214/53 sem stendur til að innleiða í íslensk lög. Í henni er gert ráð fyrir að eftirlitsstjórnvald hafi sektarheimildir ef búnaður uppfyllir ekki kröfur viðurkenndra tæknistaðla sem leitt getur til þess að búnaðurinn valdi fjarskiptatruflunum. Hér er um að ræða sektarheimild sem fyrst og fremst mundi beinast að sölu og innflutningsaðilum þráðlauss sendibúnaðar. Stefnt er að því að innleiða þessa tilskipun á haustþingi.

Jafnframt kemur til greina að breyta fjarskiptalögum á þann hátt að Póst- og fjarskiptastofnun hafi almenna sektarheimild gagnvart þeim aðilum sem starfrækja búnað sem veldur fjarskiptatruflunum. Sérstaklega kemur til skoðunar að mæla fyrir um slíkar sektarheimildir ef um ítrekuð brot er að ræða. Hafa verður í huga að fjarskiptatruflanir skapa ekki eingöngu hættu á að rof verði á mikilvægum fjarskiptum á borð við flug- og neyðarfjarskipti, heldur getur einnig farið mikill tími og kostnaður við að greina og staðsetja truflanirnar.

Hvernig við sjáum fyrir okkur þróun nettenginga og fjarskiptakerfa hér á landi með tilliti til tækni á borð við nettengingar og gervihnetti og hver séu viðhorf okkar til eignarhalds á slíkum kerfum með tilliti til fjarskiptaöryggis? Nettengingar í gegnum gervihnetti nýrra staðla á svæðum þar sem ekki er möguleiki að bjóða þjónustu í öðrum fjarskiptakerfum, t.d. fastlínu- eða farnetsþjónustu eru almennt mjög dýrar og bjóða ekki upp á gæði þjónustu, hraða og svartíma sem notendur eiga að venjast. Það er því ekki fyrirséð að nettengingar í gegnum gervihnetti verði almennur valkostur við útbreiðslu nettenginga á landsvísu. Sem dæmi má nefna mun fjarskiptasjóður færa tíu síðustu heimili af netsambandi um gervihnött yfir á aðra gerð nettenginga fyrir sumarið 2017. Flest voru slík heimili um 50 talsins árið 2010 en þeim hefur fækkað jafnt og þétt, þá einkum með tilkomu aukinnar útbreiðslu farnets á markaðslegum forsendum, einkum 3G, en einnig með sértækum aðgerðum. Nettengingar um gervihnött munu þó áfram nýtast til að koma á fjarskiptasambandi á hafsvæðum.

Hvað varðar þann lið spurningarinnar sem snýr að fjarskiptaöryggi er það skoðun okkar að áfram verði starfrækt öflugt fjarskiptakerfi hér á landi. Hins vegar má velta því fyrir sér hvort slíkt kerfi þurfi óhjákvæmilega að vera að hluta eða öllu leyti í eigu hins opinbera. Þó verður að hafa í huga að hér er um að ræða almannaþjónustu sem nú er fjármögnuð að mestu leyti af hinu opinbera.

Núverandi neyðarfjarskiptakerfið TETRA sem starfrækt er af Neyðarlínunni býr þó ekki yfir eiginleikum til háhraðagagnaflutnings. Við framtíðarþróun fjarskiptakerfa fyrir öryggis- og neyðarþjónustu hefur verið horft til aukins hraða, háhraða, gagnflutningsgetu og horfa hin Norðurlöndin í þá átt. Búast má við að það verði sama þróun hér á landi.

Ráðuneytið hefur óskað eftir því við Póst- og fjarskiptastofnun að stofnunin taki það til skoðunar hvaða möguleikar séu fyrir því að skilgreina sérstakt tíðnisvið fyrir háhraða gagnflutning í öryggisfjarskiptum, hvort sem það verður með áframhaldandi þróun á TETRA-kerfinu eða með annarri tækni.

Nettengingar um gervihnött eru einu möguleikarnir til að sinna nettengingum á skipaleiðum á norðurslóðum utan svæða sem ná farnetsþjónustu frá landi. Þeir gervihnettir sem eru á sporbaug um miðbaug eru þeim takmörkunum háðir vegna lögunar jarðar að þeir dekka ekki svæðið norðan 72. breiddargráðu. Það er því mikilvægt að Ísland beiti sér ásamt öðrum þjóðum í Norðurskautsráðinu að fleiri pólgangandi gervihnöttum verði komið á braut um jörðu. Það er sérstaklega mikilvægt vegna öryggismála, vegna aukinnar siglingaumferðar um þessi svæði.