146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

radíókerfi og fjarskiptakerfi.

137. mál
[19:28]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæt svör og hv. þingmönnum fyrir að taka þátt í umræðunni.

Ég tel að þessi litla fyrirspurn hér ætti að vera kveikja fyrir hæstv. ráðherra til þess að taka þennan málaflokk til enn þá markvissari skoðunar í ráðuneytinu vegna öryggisþáttarins en ekki síður þess þáttar sem lýtur að ráðstöfun opinbers fjár og mikilvægi þess að tækniframfarir séu vaktaðar með skipulegum hætti, að það sé ekki undir hælinn lagt hvað sé nýtt og hvað sé mikilvægt o.s.frv. heldur sé þetta gert með skipulegum hætti.

Hér hefur verið rætt um ýmsar hliðar þessara mála. Ég varð þess áskynja sem nefndarmaður í hv. umhverfis- og samgöngunefnd að það kom meira að segja þannig fyrir að þingflokkur Pírata var ítrekað á undan ráðuneytinu með að nefna tækniframfarir. Ég vænti þess að sú áminning sem var viðvarandi á síðasta kjörtímabili hafi orðið til þess að ráðuneyti fjarskipta sé meira á tánum ef svo má að orði komast varðandi þennan þátt.

Ég neita því ekki að ég er dálítið hugsi yfir svörum hæstv. ráðherra sem lúta að öryggisfjarskiptum. Ég hef miklar mætur á því að leggja áherslu á fræðslu almennt, en þegar um er að ræða svona mikla öryggishagsmuni hefur maður auðvitað áhyggjur af því að ekki sé til öflugra plan B en hæstv. ráðherra fór hér yfir. En ég vænti þess að þessi fyrirspurn og þátttakan í henni í dag verði til þess að hæstv. ráðherra beini sjónum sínum í æ ríkari mæli að þessum málaflokki.