146. löggjafarþing — 33. fundur,  27. feb. 2017.

radíókerfi og fjarskiptakerfi.

137. mál
[19:30]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég get alveg tekið undir það að full ástæða er til þess að taka þennan málaflokk til alvarlegrar skoðunar. Það eiga sér stað tækniframfarir á þessum vettvangi sem allt venjulegt fólk á bara mjög erfitt með að fylgjast með og ná utan um. Þarna verðum við að treysta á sérfræðinga. Þess vegna get ég nú bara alls ekki tjáð mig um það sem hv. þm. Björn Leví Gunnarsson var að vísa til um eitthvert Super Wi-Fi áðan. Ég verð að vísa til einhverra sem þekkja þetta betur en ég.

Það er auðvitað alveg rétt sem hv. þm. Gunnar I. Guðmundsson segir hér með vöktunina á rás 16 eða neyðarrásinni að þetta hefur breyst og þetta er áhyggjuefni. Þetta hefur breyst með öðrum bættum fjarskiptum sem við höfum og tækninni hefur fleytt alveg rosalega hratt áfram á þessu sviði. Ég var starfandi í björgunarsveita- eða neyðargeiranum í mörg ár. Ég man allt frá því við vorum að þvælast um fjöll og firnindi með einhverjar CB-stöðvar sem heyrðist ekki í fyrr en maður var kominn eitthvert út á örkina. Síðan byggði Slysavarnafélagið Landsbjörg upp mjög öflugt VHF-neyðarkerfi með endurvarpssendum út um allt land. Það kerfi er svo sem til enn þá og því er við haldið, en það varð gríðarleg breyting á öllu umhverfi þegar TETRA-stöðvarnar komu. Það var auðvitað leitt þetta hlerunarmál sem kom upp, en það var tæknivandamál sem var leyst og var til lausn á. Við munum örugglega sjá mikla þróun á þessu.

Þetta kemur auðvitað inn á það sem hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé sagði áðan varðandi tengingarnar og aðgang að netinu, en þar erum við að horfa á algjöra byltingu á landsvísu á þessu kjörtímabili. Við erum með fullfjármagnaða núna, miðað við áætlanir okkar, netvæðingu landsins (Forseti hringir.) þar sem yfir 99% af öllum heimilum í landinu munu verða beintengd við háhraðanet.