146. löggjafarþing — 34. fundur,  27. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[19:53]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu snýr að skipan dómara í nýtt millidómstig. Lögin um nýtt millidómstig voru samþykkt hér á seinasta kjörtímabili í breiðri sátt allra flokka. Það sem nú um ræðir er lagabreyting sem ráðherra telur þurfa til að sú matsnefnd sem metur hæfi umsækjenda um dómarastöðu til héraðsdóms og Hæstaréttar geti einnig tekið afstöðu til umsækjenda um stöðu dómara við Landsrétt.

Við vinnu við frumvarpið kom fram sú skoðun að kynjahlutföll við nýjan dómstól ættu að vera frá upphafi sem jöfnust og endurspeglast sú skoðun meðal annars í áliti minni hluta og breytingartillögunni sem álitinu fylgir. Þingflokkur Viðreisnar deilir þeirri sýn sem þar kemur fram. Hins vegar ber að geta að bæði dómsmálaráðherra og meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar eru klár á því að jafnréttislög ná yfir allt ferlið. Við teljum að núverandi lagarammi sé fullnægjandi og munum því greiða atkvæði gegn breytingartillögu minni hluta en með frumvarpinu í heild sinni.