146. löggjafarþing — 34. fundur,  27. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[19:54]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég má til með að taka undir hvert orð hjá hv. þm. Andrési Inga Jónssyni og lýsa um leið vonbrigðum mínum yfir orðum hv. þm. Pawels Bartoszeks þar sem ég tel að breytingartillaga minni hlutans rími ágætlega við stjórnarsáttmála Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokksins. Þar sem meðal annars segir, með leyfi forseta:

„Jafnrétti í víðtækri merkingu er órjúfanlegur þáttur í réttlátu og sanngjörnu samfélagi.“

Eins segir:

„Unnið verður að því að byggja upp traust á grunnstoðum samfélagsins, meðal annars Alþingi og dómstólum.“

Hér gefst okkur gullið tækifæri til að tryggja og virða betur traust borgaranna gagnvart dómsvaldinu með því að tryggja fjölbreytileika þess. Ég hvet alla hv. þingmenn hér inni til að greiða atkvæði með breytingartillögu minni hlutans í þessu máli.