146. löggjafarþing — 34. fundur,  27. feb. 2017.

dómstólar.

113. mál
[19:56]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þessi litla atkvæðagreiðsla núna verður mjög táknræn. Hún verður táknræn fyrir það hversu miklu máli jafnréttismál skipta í raun hjá hverjum og einum þingmanni hér. Nú ríður á að þingmenn greiði atkvæði samkvæmt sannfæringu sinni um hvort mikilvægt sé að sagt sé þegar ástæða er til að það beri að fara að jafnréttislögum. Við höfum hér, hv. þm. Andrés Ingi Jónsson og fleiri, rökstutt það vel, með tilvísun til löggjafarinnar áður, með tilvísun til þess sem áður hefur verið sagt en ekki síst með tilvísun til þess að því miður er það svo að sterkar raddir innan Sjálfstæðisflokksins hafa talað gegn því að það þurfi að geta þess að jafnrétti skiptir alltaf máli. Ég óttast að afturhaldsarmur Sjálfstæðisflokksins ráði för í þessari atkvæðagreiðslu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)