146. löggjafarþing — 34. fundur,  27. feb. 2017.

almannatryggingar.

150. mál
[20:32]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegi forseti. Það þarf að tala á mannamáli um breytingar á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, frá meiri hluta velferðarnefndar. Svo það sé sagt hér urðu alvarleg mistök við breytingar á lögum á síðasta kjörtímabili, mistök sem óvart bjuggu til réttindi sem aldrei var ætlunin að gefa. Þessi mistök sitja menn í velferðarnefnd uppi með. Bæði meiri hluti og minni hluti. Þessi mistök kostuðu okkur 2,5 milljarða á mánuði. Ég segi þetta aftur svo við skiljum það öll, þessi þunga byrði sem eftir situr eru 2,5 milljarðar á mánuði, eða 30 milljarðar á ári, 30 milljarðar sem ekki hafði verið gert ráð fyrir í fjárlögum.

Í nefndaráliti meiri hluta velferðarnefndar, segir, með leyfi forseta:

„Meiri hluti nefndarinnar telur brýnt að leiðrétta sem fyrst þessi lagatæknilegu mistök þar sem miklir hagsmunir eru í húfi. Verði það ekki gert gæti það haft þau áhrif að greiðslur frá lífeyrissjóðakerfinu yrðu undanskildar við útreikning hins nýja ellilífeyris og ráðstöfunarfjár. Meiri hlutinn leggur áherslu á að vilji og tilgangur löggjafans að halda óbreyttum undanþágum frá þeirri meginreglu að skattskyldar tekjur hafi áhrif á útreikning til bóta hafi komið glöggt fram í öllum lögskýringargögnum, einkum í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 116/2016. Þá telur meiri hlutinn ljóst af allri umræðu á þingi sem og í samfélaginu að engar réttmætar væntingar til frekari ellilífeyrisgreiðslna hafi skapast og því hafi enginn orðið fyrir tjóni.“

Ég vil vekja sérstaka athygli á síðustu setningunni. Þrátt fyrir að einhverjir hafi séð hag sinn í að dreifa röngum fréttum um meintar endurgreiðslur verða engar kröfur gerðar í þá veru. Það hefur enginn orðið fyrir tjóni. Meginmarkmið lagabreytinganna var að einfalda lífeyristryggingakerfið, auka rétt þeirra sem höfðu áunnið sér lítinn eða engan rétt í lífeyrissjóðakerfinu og auka möguleika fólks til sveigjanleika við starfslok og upphaf lífeyristöku.

Með samþykkt þessara laga náðist stór og mikilvægur áfangi í heildarendurskoðun laga um almannatryggingar og við munum halda áfram endurskoðun þeirra á þessu kjörtímabili.

Til að halda áfram á mannamáli: Hér hefur ekki orðið tjón. Tjónið gæti hins vegar myndast ef mistök sem gerð voru við breytingar á lögunum verða ekki leiðrétt. Ég er hrædd um að þá verði ekki fjárhagslegt svigrúm til að halda áfram að vinna í að hækka lífeyrisaldur í áföngum og hækka frítekjumark vegna atvinnutekna þannig að eldra fólk geti nýtt starfsgetu sína og reynslu samfélaginu til heilla.

Áhættan sem liggur fyrir og ábyrgðin sem hvílir á okkar herðum með þessari afturvirkni eru 5 milljarðar — 5 milljarðar króna í alls konar verkefni sem við þurfum að sinna í velferðarkerfinu og í ráðuneytinu.