146. löggjafarþing — 34. fundur,  27. feb. 2017.

almannatryggingar.

150. mál
[20:40]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði að spyrja út í orð hv. þingmanns sem ég hjó sérstaklega eftir í ræðu hennar. Ef ég man þetta rétt talaði hv. þingmaður um að þótt sumir hafi séð sér hag í að dreifa röngum upplýsingum um þetta mál hafi engar lögmætar væntingar skapast. Mig langar að biðja hv. þingmann að gera aðeins betur grein fyrir þeim orðum sínum. Hefur hún hugmynd um hvaða aðilar það ættu að vera sem sjá einhverra hluta vegna hag sinn í því að dreifa viljandi röngum upplýsingum um þetta mál og hvaða rök hefur hún fyrir því? Finnst henni ekki mögulegt að hugsanlega hafi rangar upplýsingar komið fram um þetta mál af því að ekkert kemur fram í greinargerð með frumvarpinu um þá 5 milljarða sem þingmenn stjórnarmeirihlutans hafa vísað ítrekað í? Það er ekkert talað um þá í greinargerð með nefndaráliti, mögulega af því að það skortir allan rökstuðning fyrir ástæðu þess að við séum að setja hér lög afturvirkt í þessu frumvarpi, þ.e. það kemur heldur ekki fram í greinargerð hvers vegna sé talin ástæða til þess að fara aftur til 1. janúar og láta lögin gilda frá þeim tíma. Gæti ástæðan fyrir því að fréttaflutningur um þetta mál er rangur ekki verið sú að meiri hlutinn hefur hreinlega ekki komið hreinskilnislega fram með það og hefur reynt að drepa málinu á dreif með því að tala ekki hreint út um hvað felst í því? Það er ekki talað um afturvirkni lagasetningar og ekki talað um þessa 5 milljarða í greinargerðinni.

Hvaða aðilar eru það sem hv. þingmaður heldur að hafi viljað dreifa röngum upplýsingum um þetta mál? Gæti ekki verið um skiljanlegan misskilning að ræða?