146. löggjafarþing — 34. fundur,  27. feb. 2017.

almannatryggingar.

150. mál
[20:42]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf) (andsvar):

Frú forseti. Það er mín bjartasta von að um mistök sé að ræða hvað varðar þær röngu upplýsingar sem komu fram í dag. Við erum að tala um fjölda ellilífeyrisþega sem er þarna úti núna og heldur að ríkið sé að koma að til að ná í peninga frá þeim. Ég veit ekki hver hafði hag af því að koma fram með þessar röngu upplýsingar en ég sagði að við yrðum að leiðrétta þetta.

Það komu svo margar spurningar að ég veit að ég næ ekki að svara þeim ekki öllum. Hv. þingmaður verður eiginlega að spyrja aftur.

(ÞÆ: Þetta var bara að það stendur ekkert í nefndarálitinu um þessa 5 milljarða, það kemur ekkert fram. Gætu þetta ekki bara verið mistök frekar en …?)

Að 5 milljarðar séu misskilningur?

(ÞÆ: Hvað segir þú?)

Að 5 milljarðar séu misskilningur?

(Forseti (UBK): Forseti verður að taka fram að umræður verða að fara fram úr ræðustól en ekki úr sal.)

Ég biðst afsökunar. Eins og ég nefndi áðan er maginn í hnút yfir þessu. Hvað varðar þessar röngu upplýsingar þá veit ekki af hverju þær komu fram, ég átta mig ekki nákvæmlega á því. Við erum ekki að reyna að fela neitt með þessu. Við erum bara að reyna að ganga frá því. Hvað varðar afturvirkni til 1. janúar var það vilji löggjafans, að lögin væru svona frá 1. janúar. Þess vegna er litið til þeirrar dagsetningar til að leiðrétta þau.