146. löggjafarþing — 34. fundur,  27. feb. 2017.

almannatryggingar.

150. mál
[20:43]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal gera mitt besta til að undirstrika betur það sem ég átti við. Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni að einhverjir hefðu séð sér hag í að dreifa röngum upplýsingum í fréttum um þetta mál. Því vildi ég spyrja hv. þingmann hver hún gæti ímyndað sér að hefði einhvern hag af að dreifa röngum upplýsingum um málið. Í því samhengi spurði ég hvort ekki væri eðlilegt að álykta frekar sem svo að þar sem þetta mál hefði ekki hlotið nægilega góða kynningu, þar sem málið væri ekki útskýrt nógu vel í greinargerð, hvort ekki gæti verið um eðlilegan misskilning að ræða af því hvernig málið hefur verið kynnt, út af því sem er í greinargerðinni. Er ekki eðlilegra að halda að þeir sem hafa verið að dreifa fréttum í dag um að ellilífeyrisþegar muni mögulega þurfa að greiða ríkinu eitthvað til baka, hafi einfaldlega misskilið það? Það er hvergi talað um að greiða þurfi að 5 milljarða afturvirkt ef við samþykkjum þetta ekki, í greinargerðinni með þessu. Og það er hvergi gefinn neinn rökstuðningur fyrir afturvirkni, sem er sá að við þurfum ekki að greiða þessa 5 milljarða til baka. Er það ekki bara eðlilegur misskilningur þeirra sem fjalla um þetta mál frekar en að einhver sjái sér hag í að deila röngum upplýsingum um það?