146. löggjafarþing — 34. fundur,  27. feb. 2017.

almannatryggingar.

150. mál
[20:55]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég hef ítrekað bent á það síðan ég fékk það mikilsverða hlutverk að vera hér fulltrúi almennings og gæta hagsmuna almennings á Alþingi, hve mikilvægt það er að muna að alltaf þegar við förum með lög erum við með fjöregg í höndunum. Það er þannig og mér finnst margir þingmenn ekki fyllilega átta sig á því, þeir hafa kannski ekki lent í því sjálfir, átti sig ekki á því að hvert einasta orð, hver einasta setning hefur áhrif oft á þúsundir manna, hefur áhrif á viðkvæmustu hópa í þessu samfélagi, því að þeir finna mest fyrir því þegar hlutum er klúðrað. Maður verður að spyrja sig hver ber ábyrgð þegar svona meiri háttar klúður á sér stað í lagasetningu.

Þær afsakanir sem ég hef heyrt hér um að það hafi verið alveg ljóst hver vilji löggjafans var og að þetta klúður hafi hugsanlega mögulega orðið til út af því að einhverju var kippt út á síðustu stundu — hvers konar lagasetning er það sem við föllumst á að sé í lagi hér á Alþingi? Gera þingmenn sér ekki grein fyrir því að við berum ábyrgð þó svo að við þurfum aldrei nokkurn tímann að standa frammi fyrir því að axla ábyrgð? Við berum ábyrgð. Við eigum að gæta hagsmuna almennings hér. Það er nefnilega þannig, forseti, að þegar ríkið klúðrar og almenningur þarf að borga brúsann þá fellur ábyrgðin á almenning. Það er ekki mikið mál að tryggja ef einhverjum er ofborgað, sér í lagi hjá Tryggingastofnun, að þeir peningar séu rifnir af fólki. Það er ekkert mál þótt fólk eigi ekki fyrir mat út mánuðinn. Það er bara þannig.

Ég sé að hv. þingmaður sem fer með formennsku í velferðarnefnd hneykslast yfir því að ég minni á að ítrekað hefur það verið þannig, og þá er ég ekki að tala um þessa ríkisstjórn, heldur ríkisstjórnina þar á undan og þarþar á undan og þarþarþar á undan, þar sem fólk kippir sér ekki upp við það að þeir sem minnst mega sín í okkar samfélagi fá ekki úrbætur út af því að tölvan segir nei. Við erum hér að tala um anda laganna. Þegar bókstafstrúin á lagabókstafinn er þannig hjá Tryggingastofnun að fjöldi fólks lifir í kvíða og ótta yfir að sækja sér réttindi sín. Hér ætlum við að standa og segja það sé bara allt í lagi.

Það eru fleiri lög hér sem við munum taka til umfjöllunar þar sem er meira klúður. Ég verð að segja að þær útskýringar sem ég hef fengið hjá þingmönnum í dag og undanfarið um að við ætlum að læra af þessu — ég hef ekki heyrt nein dæmi um það hvernig við ætlum að læra af þessu máli. Ekki nein. Það hefur enginn sagt við mig hvað við ætlum að læra af þessu, hvaða aðgerðir ætlum við að grípa til. Enginn. Hér ætlar fólk, sem hefur lofað því að við munum stunda góða stjórnsýslu, ekki lagt neina vinnu í að koma með tillögur að því hvað við ætlum að gera til að tryggja að svona gerist ekki aftur.

Hér hefur ítrekað verið talað um það og við ræddum það mikið þegar við vorum að ræða hvernig við ætluðum að mynda ríkisstjórn. Það var hluti af þeim viðræðum að við ætluðum að stunda hér betri stjórnsýslu, vandaðri lagasetningu. Ég hef ekki séð neinar slíkar tillögur koma fram, hvorki frá forsætisnefnd né hjá núverandi ríkisstjórn.

Ef svona mál er ekki til þess fallið að við vöknum og finnum kraft, orku og fókus til þess að laga vinnubrögðin á Alþingi þá veit ég ekki hvað þarf til. 5 milljarðar, forseti, það eru miklir peningar. Meiri hlutinn hefur sagt við mig að ef þetta verði til þess að þetta standist ekki stjórnarskrá verði féð rifið af þeim hópum sem hafa það verst í samfélaginu okkar. Mér finnst það ekki ásættanlegt, forseti. Mér finnst ekki ásættanlegt að hafa verið hér í átta ár og ítrekað bent á hvað lagasetning er slæm og að ekkert hafi verið gert til þess að laga það.

Við þingmenn sem köllum eftir því að fá álit sérfræðinga um það hvernig við getum haft góða lagasetningu, búið til góð lög, haft hér uppi gagnrýni og haft nauðsynlegt eftirlit með lögum og framkvæmdarvaldi, fáum ekki aðgengi að sérfræðingum og það er ekki gott, forseti.

Þið verðið að fyrirgefa mér, ágætu hv. þingmenn, að ég skuli hella mér svona yfir ykkur, en mér er bara algjörlega nóg boðið. Mér er svo nóg boðið. Hér er klukkan níu og við erum að fjalla um risastórt mál. Það á að reyna að koma því í gegn mjög hratt. Hér er lítil umræða, af ótta við hvað? Af því að lögin eru á svo gráu svæði að við gætum hugsanlega verið skaðabótaskyld fyrir það sem við erum að gera. En hver ber skaðann? Hvaða peninga erum við að passa upp á? Það eru ekki peningarnir okkar. Það eru ekki peningar ríkisstjórnarinnar. Það eru peningar sem koma frá skattborgurum. Við erum fjárhirðar fyrir skattborgara. Við megum aldrei gleyma því. Þetta eru ekki okkar peningar. Það er ekki ríkisstjórnin sem á þetta fé. Við erum að gæta að hag almennings. Þegar við gerum svona mistök getum við þá ekki í það minnsta — þeir sem bera ábyrgð á því. Hver ber ábyrgð á þessu? Má segja það? Nei, það má ekki segja það. Það má ekki segja hver ber ábyrgð á þessu.

Ég mundi mjög gjarnan vilja að þeir aðilar sem bera ábyrgð á þessu klúðri stigju hér fram og bæðust afsökunar. Ég vil að þeir aðilar sem bera ábyrgð á svona klúðri ítrekað komi með alvörutillögur til þess að laga hér lagasetningu. Við eigum að horfa til Norðmanna. Þeir eru með vandaðri lagasetningu. Ef við ætlum ekki að læra neitt af þessu missi ég alla trú á lagasetningum. Ef við ætlum ekki að læra af þessu ber ég enga virðingu fyrir þeim lögum sem hér koma út úr húsi.