146. löggjafarþing — 34. fundur,  27. feb. 2017.

almannatryggingar.

150. mál
[21:18]
Horfa

Viktor Orri Valgarðsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Við erum báðir, held ég, óvissir um það, við hv. þingmaður, hvort afturvirknin standist stjórnarskrá. Eins og hv. þm. Halldóra Mogensen kom vel inn á hér áðan þá virðist það í raun ólíklegt. Finnst þingmanninum rétt af löggjafanum við svo búið að Alþingi setji það í hendur almennings að sækja rétt sinn gagnvart þinginu eða gagnvart stjórnvöldum ef þau hafa brotið stjórnarskrá í stað þess að hafa þá reglu í heiðri að fylgja lögum og fylgja stjórnarskrá og m.a. þeim meginreglum réttarríkisins að setja ekki afturvirk lög um hagsmuni fólks. Ég skil alveg þetta hugarfar. Við skulum bara vona að þetta fari vel, þá erum við að setja það í hendur borgara sem eru í almannatryggingakerfinu. Er þetta ekki eitthvert frægt móment úr þingsögunni? Það er ekkert verið að hóta mér svo að því sé haldið til haga. Er ekki nóg að halda í áréttingarnar í greinargerð? Ég skil þetta ekki alveg, ég verð að viðurkenna það.

Ég mundi halda að við bærum siðferðislega og pólitíska ábyrgð sem löggjafi á að reyna okkar ýtrasta til að fylgja stjórnarskrá og meginreglum réttarríkis í stað þess að setja það í hendur borgara sem eru undir tryggingakerfið komnir að sækja rétt sinn gagnvart okkur og vona bara að það fari vel. Ég veit ekki hvað hv. þingmanni finnst um þá skoðun mína.