146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að nota þann tíma sem mér er úthlutaður hér til örlítillar sjálfsgagnrýni, sem einn af 63 þingmönnum á hinu háa Alþingi, og jafnvel biðla til ykkar hinna um að koma jafnvel með mér í þá sjálfsgagnrýni.

Í vikunni bárust af því fregnir að traust til Alþingis væri ekki sérstaklega mikið, það hafði þó aukist um 5 prósentustig og er nú komið í 22% samkvæmt mælingum Gallups. Það er engum blöðum um það að fletta — eða maður flettir einmitt blöðum og sér að traust til Alþingis hrundi í hruninu. Síðan hefur það ekki borið sitt barr.

Lítið traust til stjórnvalda og Alþingis þar með getur orðið alvarleg ógn gagnvart lýðræðinu sem við ættum öll að taka alvarlega. Í kjölfar hrunsins fór fram ákveðin naflaskoðun í þessum sal og hjá hinu háa Alþingi. Ýmsar tillögur til umbóta og úrbóta og breytinga á störfum og starfsháttum þings og stjórnar voru samþykktar, oftar en ekki með öllum greiddum atkvæðum, 63:0.

Ég beini því til forseta og til þingsins og okkar að við tökum saman þær samþykktir sem þingið sjálft hefur gert um þær umbætur sem það taldi nauðsynlegt og við veltum fyrir okkur hvort þær hafi náð fram að ganga, hvort eitthvað standi út af og hvort þörf sé á að grípa til einhverra aðgerða til að framfylgja þeim vilja Alþingis sem svo skýrt birtist.

Það er hollt að líta í eigin barm. Við eigum að vera óhrædd við að gera það og sjá hvað veldur, af hverju traust til okkar og starfa okkar hér er ekki meira en raun ber vitni. Það væri lýðræðinu til heilla.


Efnisorð er vísa í ræðuna