146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Það er óviðunandi ástand í húsnæðismálum á höfuðborgarsvæðinu. Framboð á húsnæði annar ekki þeirri miklu og uppsöfnuðu eftirspurn sem er fyrir hendi og afleiðingarnar eru þær að húsnæðisverð hefur stórhækkað. Ungt fólk á í meiri erfiðleikum en áður að flytja að heiman og koma sér þaki yfir höfuðið. Lóðaskortur, íþyngjandi reglugerðir og háir skattar hafa leitt til þess að erfitt, ef ekki ómögulegt, er fyrir byggjendur að koma til móts við þarfir ungs fólks sem vill ódýrt húsnæði. Það er ekki hlutverk stjórnmálamanna að byggja íbúðir fyrir þetta fólk, hins vegar er það hlutverk þeirra að skapa umhverfi þar sem þeim sem vilja gefst raunhæfur kostur á að eignast sitt eigið húsnæði og þar sem virkur leigumarkaður fær þrifist. Hér hafa stjórnmálamenn brugðist.

Vandinn sem við er að etja er fólginn í íbúðaskorti. Það sárvantar íbúðir, sérstaklega litlar og ódýrar. Verkefni okkar er því að leita leiða til að auka framboð, úthluta lóðum, einfalda regluverk og lækka gjöld og skatta til að byggjendum sé kleift að byggja íbúðir á hagstæðara verði. Hér má taka Reykjavíkurborg sem dæmi. Talið er að uppsöfnuð þörf í borginni sé nú um 4.000 íbúðir og 1.000 íbúðir verði að koma inn á markaðinn á næstu árum til að bregðast við fyrirséðri fólksfjölgun og eins þessum uppsafnaða vanda. Úthlutun lóða til uppbyggingar hefur alls ekki annað eftirspurninni sem veldur því að íbúðir, hvort sem er til sölu eða leigu, eru einfaldlega allt of dýrar.

Borgarstjórn verður að bregðast við þessu ástandi með því að stórauka lóðaframboð og skapa hagfelldar aðstæður, t.d. með því að lækka gjöld og skatta og einfalda regluverkið, þannig að byggjendur sjái sér hag í að byggja hagstætt. Þetta er heimatilbúinn vandi sem stjórnmálamönnum er í lófa lagið að leysa.


Efnisorð er vísa í ræðuna