146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[14:18]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að ég skil mjög vel hvers konar lýðheilsusjónarmið. Nú höfum við hins vegar staðið frammi fyrir því alveg frá því að bjórinn kom 1989, og ég var að verða þrítugur þegar ég fékk bjór, hefur aðgengi aukist gífurlega, ekki bara í verslunum ÁTVR. Nánast nýtt vínveitingaleyfi til einkaaðila á hverjum degi síðan. Hefur einhver kannað hvort lýðheilsu þjóðarinnar hafi hrakað eftir að bjórinn kom? Veit það einhver? Einu tölurnar sem ég sé eru að meðalaldur þjóðarinnar er alltaf að hækka.

Hvað höfum við eiginlega fyrir okkur í því að aukið aðgengi hafi gert, annað en að menn vísa í einhverjar kannanir í útlöndum sem þeir gera sem eru á móti auknu aðgengi? Ég spyr þá: Ef þessi lýðheilsusjónarmið eru svona mikilvæg og fjölgun útsölustaða verður svona skaðleg, af hverju leggjum við þá ekki bara til að við spólum til baka úr því að þetta er svona mikið mál, tökum alla þessa fjölgun, sem er alveg mörg hundruð eða þúsund prósent? Af hverju leggur þingmaðurinn það ekki til að við förum bara til baka, höfum þessar þrjár gömlu verslanir þar sem er afgreitt yfir borðið? Takmörkum aðgengið almennilega. Trúir þingmaðurinn þá að lýðheilsu þjóðarinnar sé bjargað?