146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[14:20]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst við tölum um málefnaþurrð þá er það málefnaþurrð að halda því fram að við þurfum að fara aftur til fortíðar vegna þess að þetta mál sé svo frábært og það skapi engin vandkvæði, og þá sé betra að við förum alveg aftur til fortíðar og lokum bara á allt og allt. Við vitum það, hv. þm. Brynjar Níelsson, að ef við værum að taka hér inn áfengi í fyrsta sinn myndum við ekki heimila það því að við vitum það sem við vitum í dag. Það er bara svoleiðis. Við getum líka horft til þess. Það er mjög líklegt að við mundum bregðast þannig við.

En auðvitað er það ekki svo, og það er kannski ástæða til þess að kanna það og hefði kannski átt að vera búið að kanna það áður en svona frumvarp var lagt fram: Hefur neysla bjórsins haft einhver áhrif til verri vegar? Af hverju erum við ekki búin að láta kanna það? Af hverju eru málflutningsmenn ekki búnir að láta kanna það? Það væri virðingarvert að láta gera það, mun fremur en að leggja hér fram þreytt frumvarp um mál sem búið er að fara oft í gegnum þingið, inn í nefnd en kemst ekki lengra vegna þess að það er skítfast inni í nefndinni vegna umsagnanna um það. Af hverju? Við getum ekki leyft okkur að horfa fram hjá því, það bara er ekki hægt. Að halda því fram að það séu einhverjar kannanir í útlöndum sem sé ekki að marka — hvers lags eiginlega er þetta? Er verið að halda því fram hér að vísindi, hvaðan sem þau koma, séu ekki marktæk af því að þau eru frá útlöndum og það eigi ekki við um okkur Íslendinga? Það er náttúrlega ekki boðlegur málflutningur, virðulegi forseti.

Það er alveg ljóst og færð hafa verið fyrir því rök sem eiga við hér heima eins og annars staðar: Aukið aðgengi með einkasölu, ekki með einkasölu ÁTVR heldur með því að hleypa því í aðrar verslanir annars staðar, eykur neyslu. Ég vitnaði í heilbrigðisráðherra Noregs sem hefur áhyggjur af þessu. Af hverju? Er hann bara að bulla? Þetta er reynslan annars staðar í veröldinni. Við eigum að horfa til hennar.