146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[14:27]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður heyrði það en ég tók undir með henni á einum stað í ræðu hennar. Ég sagði: Heyr, heyr. Það var á þeim stað sem hún sagðist vonast eftir að þetta væri í síðasta skipti sem við ræddum þetta mál í þingsalnum. Um það get ég verið hjartanlega sammála henni. En ég er með eina lausn á því máli, sem ég er ekki viss um að sé sama lausnin og hv. þingmanni hugnast, sem er einfaldlega að þetta mál fengi þá lýðræðislegu niðurstöðu sem fælist í því að það yrði rætt til þrautar, eins og við höfum reynt að gera í yfir áratug, og kæmist til lokaatkvæðagreiðslu. Þá myndu menn sjá hver afstaða hinna þjóðkjörnu fulltrúa er. Er þingmaðurinn ekki sammála mér um að það gæti verið eðlileg niðurstaða af því?

Og ef sú niðurstaða leiðir til þess að það er ekki meiri hluti fyrir þessu máli í þingsal getum við ímyndað okkur að það mál sé úr sögunni í einhvern ákveðinn tíma. Ef niðurstaðan er á hinn veginn fáum við það þá bara út. Getur þingmaðurinn ekki verið sammála mér um að það gæti verið farsæl niðurstaða þessa máls?

Hitt sem mig langar til að fá að vita hjá hv. þingmanni: Hún nefndi fund sem hún átti í hlutverki sínu sem talsmaður barna, fund sem ég var einnig á. Það er dálítið erfitt að vitna í fundi sem maður hefur verið á því að upplifun manna af þeim getur verið dálítið ólík. Ég fann alla vega ekki þá upplifun að ungmennaráðið á þeim fundi hafi sérstaklega lýst andstöðu sinni við þetta frumvarp þótt þeir aðilar sem komu að verkefninu hafi svo sannarlega gert það og hafi einnig lýst yfir þeirri skoðun í fjölmiðlum. Ég er að velta fyrir mér hvort þingmaðurinn hafi átt einhverja aðra fundi en þann sem ég fór á.

Að lokum, vegna þess að menn nefna alltaf skoðanakannanir, liggur fyrir að hjá yngsta aldurshópnum, þegar það verður mælt, er stuðningur við mildustu útgáfu þessa frumvarps, þ.e. að selja léttvín og bjór í matvöruverslunum. Ég velti fyrir mér, því að fyrst það er stuðningur fólks á aldrinum 18–24 ára við frumvarpið þá styður ungt fólk það væntanlega líka: Telur þingmaður í hlutverki sínu sem talsmaður barna að velferð barna skipti máli en skoðanir þeirra minna?