146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[14:33]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta mál fær væntanlega lýðræðislega framgöngu í þinginu. Við skulum sjá hverju fram vindur í nefndarstarfinu, hvort það kemur svo inn í 2. umr. og þá 3. Það verður að koma í ljós hvort vilji er til þess á endasprettinum. Ég hef ekki trú á að þetta mál verði samþykkt þótt það komi inn í þingið. Ég hef efasemdir um það. Það væri náttúrlega ljómandi gott, en við sjáum til hvað verður í því.

Varðandi hvernig fyrirkomulagið á þessu er. Ef við erum að hugsa um frelsi og fólk, um jafnræði, þá sinnir ÁTVR ákveðnu jafnræði. Ef þingmaðurinn segir að þetta geti verið í sérvöruverslunum, í matvöruverslunum, hvar sem er, eins og frumvarpið leggur til, erum við klárlega komin með mikið ójafnræði meðal landsmanna. Það er alveg klárt mál. Hv. frummælandi málsins hlær hér að því. Hvernig eigum við að halda öðru fram? Ef það er ein matvöruverslun í tilteknu plássi sem tekur að sér að selja einhverjar tilteknar sortir, með ungmenni að mestu leyti við afgreiðslu, kaupir af Högum því að hún á ekki val um annað, hvernig á hún að standast þá samkeppni sem sérvöruverslanir hér sökum fjöldans geta verið með eða hver annar sem ákveður að setja hér upp? Ekki senda þeir frítt út á land. Ekki senda þeir eða panta fyrir menn tiltekna tegund o.s.frv. Ekkert segir að það verði þannig. Það er hins vegar þannig í dag.

En ég segi enn og aftur: Við eigum auðvitað ekki að breyta fyrirkomulagi sem hefur reynst vel. Um það snýst málið. Fyrir utan öll lýðheilsurökin sem hafa verið rakin, gagnvart ungmennum og fjölskyldum og öðru slíku (Forseti hringir.) er þetta bara tómt kjaftæði, virðulegi forseti.