146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[14:48]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil enn á ný þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir andsvarið. Jú, ég tek undir það, ég held að við þurfum að vera á varðbergi í öllu þessu máli. Það er náttúrlega þekkt aðferð ef menn ætla að koma málum áfram að fyrst er farið í ýtrustu kröfur, það er farið eins langt og mönnum dettur í hug að þeir gætu kannski komist og kannski ekki því að þá er hægt að bakka til baka. Eins og ég sagði áðan hefur verið sýnd mikil þrautseigja við að koma með þetta mál ítrekað fram og það liggur eitthvað mikið að baki, því að ekki kallar almenningur eftir þessu. Ég fór um allt mitt kjördæmi núna og hef gert það áður á þessu ári, ég hef margfarið þar um. Það var enginn sem talaði um skert lífsgæði vegna þess að aðgangur að áfengi væri ekki nægur. Það kallar enginn eftir því í mín eyru. Ég hef ekki heyrt það. Það að koma fram með að áfengi sé nauðsynjavara finnst mér eiginlega fráleitt og allt að því fyndið, því að öll getum við lifað án áfengis. Vissulega getur það verið skemmtilegt og átt við og ekki er ég á móti því að fólk neyti áfengis, en við lifum í þessu samfélagi þar sem við þurfum að hafa ákveðna ramma og ákveðnar stýringar. Við berum ábyrgð hvert á öðru og við þurfum að vinna saman að því. Það fyrirkomulag sem við höfum hefur sýnt sig að er gott. Aðrar þjóðir hafa horft til okkar hvað þetta varðar. Sérfræðingar okkar á sviði áfengisvarna og lækninga eru fengnir til annarra landa til að halda fyrirlestra og ræða þar. Eins og kom fram áðan þarf ekkert að vera að tala um að við séum að lepja eitthvað upp af því að það er svo flott í útlöndum. Þetta snýst ekkert um það. Við getum alveg staðið föst á okkar. Við höfum rökin okkar hér hjá okkur. Við höfum reynsluna og við höfum rannsóknir og við höfum þekkinguna.