146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[14:55]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Pawel Bartoszek enn og aftur fyrir andsvarið. Það að ríkið skuli halda utan um þetta gefur okkur rammann sem við höfum núna. Þjónustan hefur verið aukin um landið, verslunum hefur verið fjölgað. Ég heyri ekki annað en að fólk sé ánægt með þá þjónustu. Þaðan sem ég kem er ein verslun sem er opin klukkutíma á dag. Ég heyri ekki að neinn vanti það mikið brennivín að það þurfi að fara að opna eitthvað meira. Vissulega eru staðir þar sem er engin þjónusta og ekki haft opið. En þjónustustigið, afgreiðsla með tegundir og fjölda og annað slíkt, er ljómandi gott í þessum verslunum. Ég velti fyrir mér hvernig fer ef þetta verður á hendi verslunarinnar. Hverjir eru ráðandi í þessu landi í verslun? Hverjir munu hafa undirtökin? Hverjir munu stjórna vöruúrvalinu? Hverjir munu fara að stýra því? Ég set verulega stórt spurningarmerki við það.