146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[15:10]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína, formanni velferðarnefndar Alþingis. Þetta var alveg ágætisframsaga. Það er rétt sem kom fram í ræðu hv. þingmanns að málið er enn í þinglegu ferli og á eflaust eftir að breytast eitthvað í meðförum þingsins.

Hún ræddi m.a. í ræðu sinni að stjórnmálamenn ættu ekki að ákveða hvar fólk nálgast áfengi eða hvort og hvenær fólk geti keypt sér áfengi. Mig langar að spyrja hana hvað henni finnist sem starfandi formanni hv. velferðarnefndar Alþingis um orð landlæknis, sem hefur varað við því að þetta frumvarp verði samþykkt. Mig langar virkilega að hrósa hv. þm. Nichole Leigh Mosty fyrir að hafa rætt við fjölda aðila en spyr hvort hún hafi farið til embættis landlæknis og rætt þetta mál við hann. Embætti landlæknis hefur talað um að það sé sorglegt að þetta mál sé komið fram að nýju, það muni hafa aukinn samfélagslegan kostnað í för með sér og að í löndum eins og t.d. Svíþjóð hafi verið 20–60% aukning á ýmsum þáttum eins og ofbeldi, kostnaði fyrir samfélagið og öðrum þáttum eftir að salan var gefin frjáls. Jafnframt langaði mig að spyrja hana hvort hún hafi mótað sér skoðun á því hvernig bregðast eigi við þessum athugasemdum embættis landlæknis.