146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[15:12]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir andsvarið. Já, ég fór til landlæknisembættisins en landlæknir var ekki við. Ég fékk að tala ein við — voru það ekki átta manns? Ég fór í ginið, sem sagt, til að ræða málin. Við ræddum auðvitað hans ábyrgð. Og eins og ég tók fram í minni ræðu tek ég það nærri mér. Ég skil þetta vel. En við ræddum líka að þetta er samþætt öðrum þáttum. Það er margt annað sem við þurfum að skoða með tilliti til þess að kannski verður salan gerð frjáls en það er hægt að takmarka neyslu með öðrum hætti en núverandi fyrirkomulagi. Þar ræddum við m.a. lögaldur. Ef fólk fer og kaupir sér vín og framvísar debetkorti þá eru það ekki löggilt skilríki. Það stoppar enginn þetta af þar. Enginn gerir neitt í því. En þaðan sem ég kem í Bandaríkjunum, frá Michigan, er ekki hægt að kaupa vín nema með því að framvísa löggiltum skilríkjum. Salan fer ekki í gegn hjá afgreiðslukerfinu ef þeim er ekki framvísað. Það er því margt sem við þurfum að skoða. Og þetta samtal þarf að fara á hærra plan en að nota hræðsluáróður um hvað geti gerst ef salan verður gerð frjáls. Við þurfum að segja hvernig við bregðumst við. Það varð niðurstaða samtals okkar hjá landlæknisembættinu, hjá þessu ágætisfólki.

Hvaða forvarnir? Ég spurði líka þar hvað þau ætluðu að gera með þessa hækkuðu upphæð. Nú er ræðutími minn uppurinn. Ég svara því í næsta andsvari. En þau eru ekki heldur með áætlun. Þau bíða þess að við segjum þeim hvernig þau eigi að bregðast við og í hvaða aðgerðir þau eigi að fara.