146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[15:16]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Nichole Leigh Mosty fyrir ræðu hennar. Það á kannski ekkert að koma á óvart að við erum ekki sammála í einu og öllu, en það er nú bara þannig. Fjölbreytileiki mannlífsins býður upp á það.

Ég verð að lýsa yfir þeirri skoðun minni að mér finnst miður að formaður velferðarnefndar sé einn af flutningsmönnum frumvarps sem beinlínis gerir ráð fyrir að neysla á hættulegri og skaðlegri vöru aukist. En það er bara mín skoðun og ekkert meira um það að segja. En hv. þm. Nichole Leigh Mosty er þó mjög heiðarleg með það í máli sínu að það sé einfalt reikningsdæmi að neyslan aukist, eins og hún sagði áðan.

Í máli hv. þingmanns kom fram að neyslan ráðist ekki af því hvort einkaaðilar selji áfengi eða hvort það sé ríkið. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að auglýsingar hafi áhrif á sölu, því að eitt af því sem hv. þm. Nichole Leigh Mosty, formaður velferðarnefndar, leggur til með þessu frumvarpi er að áfengisauglýsingar verði leyfðar. Telur hv. þingmaður að það muni auka sölu áfengis? Hv. þingmaður sagði áðan, eins og fleiri flutningsmenn hafa gert, enda segir það hér í frumvarpinu, að áfengi sé eins og hver önnur neysluvara, byssur og tóbak eru þar nefnd. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Er þá ekki einboðið að tóbaksauglýsingar verði leyfðar? Af hverju ættum við að leyfa auglýsingar á áfengi og taka tóbak sem dæmi um neysluvöru af sama toga en banna þá auglýsingar á tóbaki? Mun hv. þingmaður styðja tóbaksauglýsingar?