146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[15:24]
Horfa

Flm. (Teitur Björn Einarsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir afbragðsgóða ræðu og þakka fyrir að umræðan sé vonandi að færast á hærra stig, ef svo má segja. Kafli í ræðu hennar sneri annars vegar að mismunun í sölufyrirkomulagi og hins vegar neyslu. Þarna var mjög áhugaverð ábending og umræða af hálfu hv. þingmanns. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann um skoðun hennar, hvað hún sér varðandi neysluhegðun Íslendinga. Íslendingar neyta samkvæmt könnun Hagstofunnar ekki mikils áfengis. Bara alls ekki. Við bara neytum ekki mikils áfengis þrátt fyrir tvær milljónir ferðamanna sem koma til landsins. En svo segir í þessari könnun að þegar við neytum áfengis gerum við mikið af því og lengi. Telur hv. þingmaður að neysluhegðun Íslendinga geti breyst í kjölfar þess að við breytum sölufyrirkomulaginu? Horfum á þetta sölufyrirkomulag í ríkinu, sem er úrelt, ef það breytist, er ekki hægt að vænta þess að heilbrigt neyslumynstur, neysluhegðun, komi í kjölfarið?