146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[15:51]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er hjartanlega sammála þessum orðum landlæknis að kostnaður samfélagsins gæti aukist yfir 20% eða jafnvel meira. Þarna er verið að tala um gífurlega háar fjárhæðir, það er fyrir utan hinn mannlega harmleik og allt sem því fylgir sem ekki er sýnilegt eða mælanlegt sem fylgir of mikilli neyslu. Ýmislegt gerist í kjölfar þess inni á heimilum sem við sjáum ekki, ofbeldi gagnvart börnum og annað því um líkt, ungt fólk leiðist út í drykkju of snemma og lendir svo á villigötum vegna vímuefnaneyslu. Þetta verðum við að vega og meta. Það dugar ekki bara að leggja til að fjárhæðir í lýðheilsusjóð verði auknar í tvö ár. Það er ekki plástur sem dugar á svona stórt sár sem þarna er verið að gera með þessu frumvarpi.