146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[15:53]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Varðandi það að vínframleiðendur séu hlynntir, eins og ég skildi hann, því að þetta verði með sama hætti og er í dag þá þýðir það kannski fyrst og fremst hve gott fyrirkomulagið er í dag, þ.e. að allir aðilar hafi aðgengi að þessu. Þessir sömu framleiðendur hefðu ekki möguleika á því að selja sitt áfengi og framleiðslu í Bónus á Egilsstöðum eða á Ísafirði. Það eru þessir stóru hákarlar sem munu gleypa þetta. Þeir munu gleypa þetta. Þeir gleypa umboðin og þetta verða nokkrar sérverslanir á höfuðborgarsvæðinu. Síðan verða ódýr kassavín í lágvöruverðsverslunum úti um land. Þannig verður þetta. Það getur vel verið að einhverjir stórir muni græða mikið, hluthafar þessara stóru verslunarkeðja og þessir stóru aðilar. Þess vegna er ég ekkert hissa á því að þeir framleiðendur telji hag sínum betur borgið innan ÁTVR en með Haga fremsta í flokki.

Ég bið hv. þingmann afsökunar á því að hafa líkt flokki hans við Sjálfstæðisflokkinn, en það er bara þannig í mínum huga að margt er líkt með skyldum.