146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[16:04]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að lýsa yfir ánægju minni með að vera það lágt í goggunarröðinni hér í þingheimi að hafa ekki verið falið neitt ábyrgðarhlutverk líkt og að vera formaður í einhverri nefnd þannig að hægt sé að setja það „spinn“ á þetta mál að það sé ósamboðið hlutverki mínu að vera flutningsmaður þess. Ég er reyndar fyrsti varaformaður í umhverfis- og samgöngunefnd, þannig ég efa það ekki að það verður einhvern veginn hægt að finna það út að þau tvö hlutverk fari ekki saman.

En í ræðu minni ætla ég að tala um mann, ímyndaðan mann. Ég ætla að kalla hann Viggó. Viggó hefur ástríðu fyrir ítölskum vínum. Hann veit mikið um ítölsk vín. Hann flytur inn ítölsk vín. Hann myndi langa að geta selt fólki ítölsk vín. Hann myndi langa að opna búð í hverfinu sínu, kalla hana vínbúð Viggós og eiga sinn viðskiptavinahóp, hóp af fólki sem kemur til hans til að kaupa af honum ítölsk vín.

Ég hugsa um konu. Ég ætla að kalla hana Pálínu. Pálína hefur líka ástríðu fyrir ítölskum vínum. Hún myndi gjarnan vilja kaupa þau af Viggó, fara inn í búð hans og spyrja: Hvað ertu með handa mér í dag? Heldurðu að þetta passi með lasanja? Ókei. Takk. Sjáumst síðar.

Ég þekki fólk eins og Pálínu. Ég er fólk eins og Pálína. Ef ég mætti skipta út áfengislögum á Íslandi fyrir lög og hefðir sunnar í álfunni, á Ítalíu, Grikklandi eða Spáni, þá myndi ég gera það. Ég er ekki Viggó, en ég þekki fólk eins og Viggó, fólk sem myndi velja að selja vín til fólks eins og Pálínu.

Þrátt fyrir að áfengi sé löglegt, ekki venjuleg en lögleg neysluvara, og þrátt fyrir að Viggó og Pálína séu fullorðið fólk þá eru þessi viðskipti milli þeirra ekki heimil. Nei, ef Viggó vill komast í tæri við viðskiptavin þá verður hann að ráða sig til opinberrar stofnunar. Ef Pálína vill versla við Viggó verður hún að versla við þessa tilteknu opinberu stofnun.

Kannski finnst fólki þessi skerðing á verslunarfrelsi, atvinnufrelsi og athafnafrelsi smávægileg og léttvæg í hinu stóra samhengi hlutanna. Ég skil það. En skerðing er það nú samt. Já, þetta er skerðing. Það getur vel verið að fólki finnist hún þess virði en hlæjum hana ekki af okkur. Viðurkennum að um skerðingu er að ræða og viðurkennum að hún er í raun heilmikil. Það er ekki verið að torvelda eða setja skilyrði. Það er ekki verið að segja: Þú verður að vera með hárnet eða þvo þér um hendurnar eða fara á námskeið eða borga hátt leyfisgjald eða senda inn … Nei, það er ekki verið að skerða möguleika Viggós til þess að reka þessa vínbúð, það er verið að banna honum að gera það. Það er líka verið að banna öllum þeim sem væru til í að versla við hann að gera það.

Hér veifa menn skoðanakönnunum. En þær sýna samt að góður fjöldi, 30–40% fólks, væri vel til í að kaupa áfengi annars staðar en hjá ríkinu. Við getum heldur ekki hunsað það, látið eins og það sé áhugamál nokkurra hér í salnum því að það er ekki svo. Viggó fær aldrei séns. Menn segja bara: Þú ert örugglega að fara að selja börnum áfengi. Samt þarf það ekki að vera.

Þegar Washington-ríki steig skref þá jókst áfengisneysla barna ekki og aðgengi barna að áfengi jókst heldur ekki. Ef menn hafa áhyggjur af því að það muni gerast þá eru sannarlega til leiðir til að sporna við því.

Ég játa það að ég er tiltölulega langt í frjálsræðisátt í þessum efnum, eflaust á mörgum sviðum lengra en þetta frumvarp er. En um leið finnst mér ekki mjög erfitt að kyngja ýmsum stjórnlyndum aðgerðum í því skyni að koma til móts við áhyggjur annarra. Mér finnst samt að þeir sem reka verslanir, þeir sem flytja inn vín og þeir sem brugga bjór og vilja geta boðið fólki að kaupa hann að lokinni einhverri heimsókn í brugghúsið, eigi að fá tækifæri til að gera það. Fólk ætti að fá séns.

Fólk getur kannski hlegið að þessu, sagt að þá sé búið að gera Costco eða Bónus að einhverjum vinalegum, hjartahlýjum vínsala. Það má vel finna þann veikleika í málflutningi mínum. En þetta er samt ekki grín. Hræsni, löggjöf og framkvæmd hennar er slæm. Ríkið, hvað gerir það? Það opnar búðir sínar þar sem aðgengi er best. Það auglýsir grimmt. Það er með ráðgjafa. Fólk kemur til ríkisins og segir: Ég ætla að borða kjúkling og verða drukkinn. Þá kemur einhver og segi: Já, hérna er þessi útgáfa af fíkniefninu sem hentar best til þess.

Mér finnst það að einhverju leyti allt í lagi. Mér finnst það jafnvel gefa lífinu lit. En ef við erum í þessum leik á annað borð finnst mér að við ættum að leyfa öðrum að vera í honum líka, eftir sömu reglum, undir sama eftirliti. Það er það sem þetta frumvarp gengur út á.