146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[16:14]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er leitt að valda hv. þingmanni vonbrigðum úr þessum ræðustól; ég þekki reyndar fáa þingmenn hér inni sem hafa sterkari skoðanir á því sem aðrir segja í þessum ræðustól en einmitt hv. þm. Pawel Bartoszek. Ég skal gera mitt til að reyna að uppfylla væntingar hans.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni. Ástæðan fyrir því að ég kem með þessi mótrök gegn ræðu hv. þingmanns er sú að mér fannst ræða hv. þingmanns vera loftkennd. Hún er á þá vegu að mála þetta sem eitthvert frelsis- og framfaramál, en þá sem eru á móti þessu, af hvaða ástæðum sem það er nú, sem fylgjendur hræsnisfullrar löggjafar. Mér hugnast svona málflutningur ekki, svo að ég fari nú í þann flokk sem er að gagnrýna málflutning annarra hér, af því að á endanum snýst þetta um hvar við viljum setja mörkin sem við öll, hvert og eitt einasta okkar sem höfum tjáð okkur hér í þessum ræðustól, viljum (Forseti hringir.) hafa. Hvar viljum við setja þau? Það er ekki eitthvert andstæðupar frelsi og frjálshyggja versus hræsni og forræðishyggja.