146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[16:17]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í það sem stendur m.a. í greinargerðinni en þar eru ákveðnar fullyrðingar. Til að mynda er talað um áhrif á samkeppnisstöðu kaupmannsins á horninu og fullyrt að aukið frelsi í smásölu muni jafna stöðu verslana um land allt og kaupmaðurinn á horninu hafi þá betri tök á að taka þátt í samkeppni, þótt reyndar sé sagt að það gæti reynst honum erfitt að keppa beinlínis við verðlagningu á áfengi. Því langar mig að spyrja hvort hv. þingmaður telji það ekki ganga gegn jafnræðisreglunni eins og staðan er í dag að fólk fái ekki að kaupa áfengi á sama verði hvar sem það býr og þurfi að borga meira fyrir það, eins og er með mikið af matvöru og þjónustu nú þegar jafnvel þótt ríkið reyni að mæta því með aðgerðum í flutningskostnaði o.s.frv.? Finnst honum að búa eigi til þetta ójafnræði? Er hv. þingmaður sammála mér um að það geti orðið til þess að stóru aðilarnir á markaðnum verði ráðandi og fái áfengi á mun lægra verði og geti sankað að sér umboðum sem minni aðilar og landsbyggðin hefur minni möguleika á að gera?

Síðan langar mig að vekja athygli á öðru sem mér finnst vera hræsni og hroki, með leyfi forseta:

„Aðgangur að takmörkuðu úrvali er betri en enginn aðgangur eða aðgangur sem er erfiðleikum eða kostnaði háður.“

Þetta er sem sagt um sérstök áhrif á landsbyggðinni. Mér líkar mjög illa við þessa setningu vegna þess að mér finnst hún niðurlægjandi gagnvart landsbyggðinni.

Ég velti líka fyrir mér þegar talað er um áhrif á aðra smásöluvöru að hér segi að þetta verði eflaust til lækkunar. Það er mjög víða fullyrt hér. Þetta eru getgátur. Ég spyr hv. þingmann hvort hann sé sannfærður um að þetta sé svona, eða hvort hann getur fært einhver haldbærari rök fyrir því að þetta séu einungis getgátur sem eru settar fram. Hefur hann eitthvað máli sínu til stuðnings (Forseti hringir.) um að þetta geti verið svona?