146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[16:23]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er jafn mikið hægt að fullyrða um að þetta auki aðgengi á landsbyggðinni, sem ég held að það geri, og það er hægt að fullyrða um áhrif þess á lýðheilsu. Það er hægt að skoða reynslu annarra þjóða. Þingmennirnir sem eru andvígir þessu máli eiga ekki í neinum erfiðleikum með að nýta sér niðurstöður lýðheilsurannsókna um eitthvað sem getur gerst til þess að koma með getgátur um hvað gerist í framtíðinni. (Umhvrh.: Hvaða rannsóknir eruð þið með?) Þetta eru (Gripið fram í: Og landsbyggðina?) líka getgátur. Þar sem þetta hefur verið (Gripið fram í: … vísindalegar …?) gert …

(Forseti (NicM): Ró í salnum.)

Þar sem þetta hefur verið gert hafa áhrif á verslun verið jákvæð, bæði í hinum dreifðari byggðum sem öðrum. Af þeim rannsóknum sem hér voru taldar upp skal ég játa að ég hef aðeins kynnt mér rannsóknir Ara Matthíassonar. Ég hef líka kynnt mér þá skýrslu sem sænska ÁTVR gaf út um hugsanleg áhrif þess að afnema einokun á (Umhvrh.: Lýðheilsustofnunin sænska.) áfengi, en ég hef ekki kynnt mér tiltekna rannsókn nemenda á Bifröst sem (Gripið fram í.) vitnað er til.