146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[16:24]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit satt að segja ekki hvor er meira viðutan, Viggó eða hv. þm. Pawel Bartoszek, sem er ansi gjarn á fullyrðingar hér í ræðustól Alþingis án þess að rökstyðja mál sitt með nokkrum hætti nema þá kannski með sínu eigin hugarafli.

Einkasala ríkisins á smásölu áfengis felur eðli málsins samkvæmt í sér hömlur. Fjöldi áfengisverslana og opnunartími er takmarkaður og verslunin stundar enga söluhvetjandi starfsemi enda ekki rekin í gróðaskyni þrátt fyrir að ábatinn af áfengissölunni hafi verið drjúgur fyrir ríkissjóð. Þvert á það sem hv. þm. Pawel Bartoszek fullyrðir í ræðustól Alþingis þá er það nú einu sinni svo að viðskiptavinum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins bjóðast engin tilboð á áfengi, enginn afsláttur, og ríkið auglýsir ekki grimmt eins og hv. þingmaður sagði áðan af því að hér er ekki um neina venjulega neysluvöru að ræða. Hér er um áfengi að ræða. Þess vegna eru á því hömlur eðli málsins samkvæmt.

Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann út í þá staðreynd sem studd er af ansi víðtækum rannsóknum og niðurstöðum kannana og fleira: Ef áfengissala er gefin frjáls eykst álag á löggæslu og heilbrigðiskerfi verulega með tilheyrandi kostnaði fyrir skattborgarana, eins og tölur frá Danmörku og víðar sýna. Hvað finnst hv. þingmanni um þetta aukna álag og kostnað? Er það í samræmi við áherslur Viðreisnar þegar kemur að lýðheilsusjónarmiðum að auka álag á heilsugæslustarfsfólk og heilbrigðisstarfsfólk og löggæsluna?