146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[16:30]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Samkvæmt ákveðnu gildismati þar sem maður leggur fyrst og fremst áherslu á lýðheilsumál og ekki nein önnur mál sé ég hvernig maður kemst að þeirri niðurstöðu að þetta sé ekki rétt. En ég játa það bara að það er ekki eini eða veigamesti punkturinn hjá mér þegar ég tek ákvörðun um hvað á að vera leyft og hvað á að vera bannað.

Varðandi fákeppnina hef ég þá skoðun að þetta mál myndi hjálpa til við að auka samkeppni vegna þess að það hefur sýnt sig að verslun er blómlegri þar sem þetta fyrirkomulag (Gripið fram í.) er við lýði. Í dag er fyrirkomulagið þannig t.d. að ákveðið er að opna vínbúð í Smáralind. Af hverju? Hvaða verslanir eru þar? Auðvitað eru stærstu verslanirnar þar nú þegar og það er ekkert gegnsæi í því hvar verslanir ríkisins eru staðsettar. (RBB: Aukið aðgengi?) — Forseti? (Forseti hringir.) Með þessu fyrirkomulagi væri gegnsærra og auðveldara fyrir litla aðila sem reka litlar og meðalstórar verslanir að fá þessa þjónustu til sín.