146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[16:32]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á að óska flutningsmönnum frumvarpsins til hamingju með þann árangur sem þau hafa náð. Við sjáum í nýrri könnun að andstaða við að afnema einkasölu ríkisins á áfengi hefur aukist verulega frá því í fyrra. Ég þakka flutningsmönnum frumvarpsins kærlega fyrir þann árangur. Andstaðan er orðin 58% en var 52% á sama tíma í fyrra. Ég vonast til að við getum rætt þetta oft hér á næstu árum þannig að við sjáum andstöðuna aukast enn frekar.

Ég held að umræðan sem hefur átt sér stað hér á vettvangi Alþingis og úti í samfélaginu sé að skila þessu. Það er mjög merkilegt að sjá að þetta skiptist á milli stjórnmálaflokka, þó kannski ekki endilega eins og maður hefði haldið fyrir fram. Ég vænti þess að málið verði rætt sérstaklega á næsta landsfundi Sjálfstæðisflokksins þar sem ég vænti þess að Sjálfstæðismenn á Seltjarnarnesi komi sterkir inn eftir sína ágætu ályktun gegn frumvarpinu nú nýlega. En það er merkilegt að meiri hluti kjósenda allra flokka er á móti því að sterkt áfengi fari í búðir, allra flokka. Síðan skiptist það meira þegar kemur að bjór og léttvíni.

Það er ánægjulegt að fá tækifæri til að ræða þetta mál því að ýmislegt í umræðunni hefur orðið til að þroska hana, færa hana áfram. Við sjáum að skoðanir eru talsvert skiptari um málið en ætla mætti af greinargerð frumvarpsins. Ég get nefnt sem dæmi áhrifin á lítil brugghús sem eru talin mjög jákvæð í greinargerðinni en síðan, eftir því sem umræðunni hefur undið fram, hefur komið í ljós að eigendur þeirra eru svo sannarlega ekki allir sammála því að þetta sé endilega gott fyrir þessa fjölbreytni í bruggun á áfengi, sem er áhugavert í sjálfu sér.

Ég hef nú setið hér á þingi í tíu ár, eins og kunnugt er, og þetta mál hefur nokkrum sinnum verið á dagskrá og komið til umræðu en andstaða við það úti í samfélaginu hefur vaxið fremur en hitt. Við höfum líka rætt það talsvert oft á þessum tíu árum hér á Alþingi að mikilvægt sé að hlusta eftir því sem fagfólk segir. Þess vegna finnst mér líka merkilegt að lesa það í greinargerðinni að frumvarpið feli ekki í sér tillögur um breytingar á áfengisstefnu. Ef við hlustum eftir því hvað fagfólk í þeim efnum segir, þ.e. fagfólkið sem sér um að veita Alþingi umsagnir um áfengisstefnu — ég er þá að vitna í fagfólk á heilbrigðissviði, landlækni, lýðheilsufræðinga, hjúkrunarfræðinga, lækna — þá eru umsagnir þess allar á einn veg. Þau leggjast gegn frumvarpinu á þeim forsendum að það feli í sér verulegar breytingar á áfengisstefnu íslensks samfélags.

Hver hefur sú stefna verið? Jú, hún hefur verið sú að reyna að takmarka aðgengi að áfengi því að áfengi er ekki eins og hver önnur neysluvara. Þess vegna eru það skringileg skilaboð ef Alþingi Íslendinga myndi, með alla þá þekkingu og vitneskju sem hefur verið lögð fyrir okkur af þessu fagfólki, samþykkja að færa áfengi út í matvöruverslanir, sem eykur ekki aðeins aðgengi að áfengi heldur sendir líka þau skilaboð, þrátt fyrir að áfengið sé sérstaklega hólfað af, að áfengi sé eins og hver önnur neysluvara.

Við getum velt þessu fyrir okkur þegar við skoðum það sem landlæknir vísar til á sinni heimasíðu, þar sem vitnað er í ýmsar rannsóknir. Ég hef heyrt það í því sem ég hef fylgst með í þeim ágætu umræðum sem hér hafa verið — um margt mjög góðar og gott að við tökumst á um þessi mál — að ekki sé endilega hægt að bera okkur saman við önnur lönd. En ég held samt að Ísland sé ekkert sérstaklega frábrugðið öðrum löndum. Ég held að við séum öll ósköp lík þvert á landamæri. Og það er áhugavert að sjá til að mynda að áfengisneysla á þeim Norðurlöndum þar sem hún hefur verið takmörkuð við áfengisverslanir á vegum ríkisins — sem hingað til hefur verið í fjórum af fimm Norðurlöndum, þ.e. Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi — hefur áfengisneysla ungmenna til dæmis verið umtalsvert minni en í Danmörku þar sem hún er með því hæsta sem gerist í Evrópu. Ef við tökum bara þetta með í reikninginn þá er þetta mjög áhugaverð niðurstaða úr vísindarannsóknum.

Við höfum séð talsvert miklar rannsóknir frá Bandaríkjunum þar sem við sjáum sterkar vísbendingar um að óhófleg neysla áfengis aukist í kjölfar einkavæðingar á sölu áfengis því að stýring stjórnvalda í gegnum aðganginn sé mun notadrýgri leið til að draga úr áfengisneyslu en fræðsla og forvarnir, sem lagt er til í frumvarpinu að verði auknar. Af hverju segi ég þetta? Jú, ég byggi þetta beinlínis á rannsóknum sem líka er vísað til á heimasíðu landlæknis frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni um að sterkar takmarkanir, sem ekki bara snúast um opnunartíma heldur líka þau hughrif að áfengi sé ekki eins og hver önnur neysluvara, beri miklu meiri árangur en forvarnir. Það er umhugsunarefni, þegar við ræðum þetta hér, og það er mjög mikilvægt að við horfumst í augu við þessar rannsóknir og segjum þá: Gott og vel, ef þetta væri samþykkt myndi það væntanlega þýða stóraukna áfengisneyslu.

Hér hefur verið vitnað til Washington. Samkvæmt skýrslu sem ég var að lesa um það ágæta ríki er því spáð að áfengisneysla aukist um 48% á sex árum frá því að reksturinn var gefinn frjáls. Frá Bandaríkjunum höfum við skýrslu þar sem segir að í ríkjum með ríkisrekstur sé áfengisneysla almennt 12–15% minni en þar sem þessi rekstur hefur verið einkavæddur. Gott og vel, við viljum þá auka áfengisneyslu þvert á ráðleggingar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem hefur sett það markmið að draga eigi úr áfengisneyslu um 10% fyrir árið 2025. Þá ætlar Ísland að fara af stað með markvissar aðgerðir til að auka áfengisneyslu. Það verður saga til næsta bæjar, frú forseti, ef það er okkar heilbrigðisstefna sem við ætlum að reka hér.

Það er merkilegt að auðvitað eru alltaf rök með og á móti öllu. Hér segir fólk: Ja, það er hagræði, hagræði fyrir neytendur að geta keypt áfengi á sama stað og aðrar vörur. Hagræði. Sumir kalla það jafnvel frelsi. En ég get ekki litið svo á, og tek þar undir með heimspekingnum Róberti H. Haraldssyni sem hefur fært fyrir því ágætisrök að sala áfengis í matvöruverslunum geti ekki snúist um einstaklingsfrelsi, að vissulega snúist þetta um verslunarfrelsi, þ.e. frelsi manna til að versla með hvað sem er hvernig sem er. En þegar kemur að einstaklingsfrelsinu verður einkasala ríkisins á áfengi vart til að skerða frelsi einstaklingsins. Ekki nema við teljum að í Svíþjóð sé frelsi einstaklingsins skert, og tökum þar með undir með þeim sem vilja gera mikið úr þeirri ógnaröld sem ríki í Svíþjóð þegar kemur að frelsi og mannréttindum. Að sjálfsögðu ekki. Við sjáum að það sama á við um fylki hvort sem er í Kanada eða Bandaríkjunum, við erum ekki að tala um frelsisskerðingu þótt þar séu skýrar takmarkanir á aðgengi að áfengi.

Frjálslynd samfélög reisa nefnilega öll einhverjar skorður við verslun og ekki síst með áfengi því að það er ekki venjuleg neysluvara. Eftir því sem vísindarannsóknum vindur fram á þessari vöru, áfengi, kemur nefnilega margt í ljós. OECD hefur sett fram skýrslu um kostnað OECD-ríkja við áfengisneyslu sem alls ekki felst eingöngu í áfengissýki eða svokölluðum alkóhólisma, sem er auðvitað skelfilegur fylgifiskur áfengisneyslu, heldur ekki síður í alls kyns öðrum heilsufarskostnaði, skorpulifur, margháttuðum félagslegum kostnaði, umferðarslysum; þegar við skoðum til að mynda banaslys í umferðinni innan OECD-ríkjanna kemur í ljós að áfengi er þar verulegur orsakavaldur.

Áfengisneysla er talin fimmti stærsti orsakavaldur sjúkdóma og dauða innan OECD-ríkja samkvæmt þessari sömu skýrslu frá árinu 2013. Við erum að ræða frumvarp sem vissulega hefur áhrif á áfengisstefnu þjóðarinnar þótt annað segi í greinargerð. Ég skil raunar ekki þá staðhæfingu í greinargerð með frumvarpinu að þetta varði ekki áfengisstefnu. Auðvitað varðar þetta áfengisstefnu samfélagsins. Þá hljótum við að velta því fyrir okkur þegar við heyrum þær íslensku fagstéttir sem ég nefndi hér áðan, þegar við lesum skýrslur frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, þegar við lesum skýrslur frá OECD og sjáum að þar er hreinlega verið að útbúa, t.d. í þessari OECD-skýrslu sem ég nefndi hér, matseðil að því hvernig hægt sé að fara í það verkefni að takmarka aðgengi að áfengi, til þess að koma í veg fyrir þann kostnað sem hlýst af óhóflegri áfengisneyslu innan samfélaga. Því að OECD er svo sem ekkert endilega að velta fyrir sér þessum málum bara út frá heilbrigðissjónarmiðum heldur ekki síst út frá þeim kostnaði sem áfengisneysla veldur innan OECD-ríkja.

Við höfum margoft rætt það hér á þingi. Hér var rætt um traust á Alþingi fyrr í dag. Ég er ein af þeim sem tóku þátt í að samþykkja sérstaka ályktun um að við ættum að vanda betur vinnubrögðin á Alþingi. Ég er nú enn á því að við getum gert talsvert betur í þeim efnum en okkur hefur tekist hingað til. Því miður. Öll berum við væntanlega einhverja ábyrgð á því. En hluti af því sem var rætt í þeirri ályktun var að það væri mjög mikilvægt að hlusta eftir því sem fagaðilar segðu þannig að þegar við ræðum mál sem varðar áfengisstefnu samfélagsins hljótum við að hlusta eftir því.

Þeir sem eru sammála því að afnema einkasölu ríkisins á áfengi vilja gjarnan teikna þetta upp sem svo að það skipti engu máli hvort neysla aukist eða ekki þar sem þetta snúist hreinlega um frelsi, og ég nefndi hér áðan að ég teldi ekki að það skerti einstaklingsfrelsi fólks að settar séu ákveðnar skorður við verslun. Það skerðir verslunarfrelsi en ekki einstaklingsfrelsi, og ég vitnaði þar í Róbert Haraldsson. Mig langar að nefna annað dæmi sem ég vísaði raunar líka í síðast þegar ég hélt ræðu um þetta mál. Mér fannst það bara svo gott dæmi að ég ætla að endurtaka það hér hv. þingmönnum til ánægju. Ég hlustaði nefnilega á geðlækninn David Nutt sem kom hingað fyrir örfáum árum og hélt þá erindi um afglæpavæðingu fíkniefna. Hann hefur ekki hikað við að hafa skoðanir sem oft eru óvinsælar. Hann hefur raunar bent á að ýmis þeirra efna sem við köllum venjulega harðari fíkniefni valdi mun minni heilsufarsskaða en áfengi þegar við skoðum það. Hann hefur talað fyrir afglæpavæðingu fíkniefna, fyrir því að ríkið taki hins vegar á því að hafa mjög skert eftirlit með slíkum efnum. Hann var spurður hvort Íslendingar ættu ekki að einkavæða áfengissölu í ljósi hans þekktu frjálslyndu viðhorfa til fíkniefna. Og hann sagði: Alls ekki. Íslendingar ættu eindregið að halda sig við núverandi fyrirkomulag og takmarka þannig skaðsemi áfengis. Hins vegar ættu Íslendingar að skoða það að taka upp mun frjálslyndari stefnu í því hvernig við tökum á fíkniefnamálum þannig að samfélagið styðji við þá sem eiga við slík vandamál að stríða fremur en að refsa þeim. Hann sagði: Skaðsemin af hinu, þ.e. af því að afnema einkasölu ríkis á áfengi, getur hins vegar orðið ótvíræð. Og þetta er einn helsti talsmaður frjálslyndra viðhorfa þegar kemur að málefnum sem tengjast fíkniefnum og hvernig við meðhöndlum fíkniefnabrot. Ég er að mörgu leyti sammála því sem David Nutt segir.

Ég held nefnilega að áður en við getum tekið þetta mál til afgreiðslu eigum við — og ég vænti þess að þetta mál fari til hv. allsherjar- og menntamálanefndar en ætti raunar ekki síður heima í hv. velferðarnefnd því að þetta mál snýst ekki bara um það hvernig nákvæmlega sölu á áfengi er hagað á Íslandi, það snýst um risastórt heilbrigðismál. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því, þegar við ræðum að breyta hér fyrirkomulagi á áfengissölu, að við það mun áfengisneysla aukast. Ég sé ekki í greinargerð frumvarpsins að búið sé að leggjast í ítarlegar rannsóknir á því hversu mikið hún muni aukast þó að við höfum hins vegar ýmsar rannsóknir frá öðrum löndum, allt frá, eins og ég nefndi hér áðan, 12% upp í 40%. Er búið að kostnaðarmeta hvað þetta mun þýða? Er ekki eðlilegra að við höfum þær tölur fyrirliggjandi? Verði þessu máli vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar legg ég nú til að hún (Forseti hringir.) vísi málinu líka til hv. velferðarnefndar og óski eftir hennar sjónarmiðum til þess að við fáum allar þessar greiningar á hreint áður en við tökum hér 2. umr. um málið.