146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[16:48]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir ræðuna og tek undir orð hennar um mikilvægi þess að málið fari til umfjöllunar í hv. velferðarnefnd Alþingis. Þá meina ég að hv. velferðarnefnd sendi umsögn um málið til hv. allsherjar- og menntamálanefndar eins og gert hefur verið alla vega á síðustu tveimur þingum þegar umrætt mál hefur verið til vinnslu á Alþingi.

Nú hef ég verið á þingi í tæp fjögur ár og þetta er í þriðja sinn, að mig minnir, sem málið er lagt fram á þeim tíma. Ég var einmitt búin að reka augun í það sama og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir talar um, að andstaða við frumvarpið hefur aukist á þeim tíma. Ég get tekið undir orð hennar um að áfengi er ekki eins og hver önnur neysluvara og mikilvægi þess að við hlustum á orð fagaðila, þ.e. landlæknis, Krabbameinsfélagsins, Barnaheilla og annarra aðila sem varað hafa við samþykkt þessa frumvarps.

Ýmis orð hafa fallið í umræðunni, m.a. þau að við sem vörum við samþykkt frumvarpsins í ræðum á Alþingi, séum með hræðsluáróður. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvað hún segi um þau orð og hvað hún segi um þær umsagnir sem þessir fagaðilar hafa sent frá sér. Er hún ekki sammála því að mjög mikilvægt sé að ræða þær í þessari umræðu og taka þær til greina við efnislega vinnslu málsins á Alþingi?