146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[16:50]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvar hennar þar sem hún veltir upp hvað mér finnist um þann málflutning. Nú hef ég ekki verið hér í salnum undir allri þessari umræðu, ég tek það fram. En ef vitnað er til þess að þeir sem andmæli frumvarpinu með lýðheilsurökum séu með hræðsluáróður — ég nefndi hér Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina, ég nefndi landlækni, ég nefndi OECD. Ég sé þessa aðila ekki alveg fyrir mér vera með hræðsluáróður. En ég er alveg viss um að þeir sem bentu á skaðsemi reykinga á sínum tíma hafi örugglega verið sakaðir um hræðsluáróður. Þeir sem gerðu þá kröfu að setja bílbelti í bíla, það var náttúrlega gríðarlega íþyngjandi fyrir bílaframleiðendur á sínum tíma — það hefur örugglega verið kallað hræðsluáróður. Einhvers staðar las ég að sú aðgerð að setja bílbelti í bíla og skylda fólk til að nota bílbelti væri það sem skilað hefði hvað mestu umferðaröryggi. En hræðsluáróður hefur það vafalaust verið kallað.

Ég held að við þurfum að horfa á þetta mál málefnalega. Eins og ég nefndi áðan færa þeir sem eru fylgismenn þessa frumvarps fyrir því rök, hagræðisrök og annað slíkt. En það er ekki hægt að horfa fram hjá umsögnum þeirra aðila sem mestir sérfræðingar eru á sviði heilbrigðismála eða afgreiða þær sem einhvern hræðsluáróður. Það getum við ekki gert í málefnalegri umræðu á Alþingi. Við hljótum þar af leiðandi að gera þá kröfu að í meðförum þingsins verði farið sérstaklega ofan í þau mál. Þetta mál snýst ekki um frelsi verslana til þess að selja áfengi eins og hverja aðra vöru. Þetta mál snýst um grundvallarbreytingu á áfengisstefnu sem varðar hvern einasta Íslending. Áfengi hefur ekki bara skaðleg áhrif fyrir þann sem þess neytir. Félagslegar afleiðingar eru líka gríðarlega miklar. Við hljótum að rýna (Forseti hringir.) þetta mál út frá því.