146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[17:02]
Horfa

Viktor Orri Valgarðsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðurnar og svörin. Mér finnst reyndar áhugavert að heyra að hún segist ekki hafa heyrt miklar deilur um það á vettvangi fræða hvað frelsið feli í sér og minni í því samhengi á að John Stuart Mill byrjaði sjálfur á því að fjalla um takmarkanir á einstaklingsneyslu og einkalífi og hvort það samræmdist gildum frelsisins. Það kemur inn á það að hv. þingmaður gerði greinarmun á verslunarfrelsi og einstaklingsfrelsi. Það er mikilvægur greinarmunur, en það er samt hluti af einstaklingsfrelsi að mega versla með löglega vöru gegn ákveðnum skilyrðum. Það eru ekki fyrir mér aðalrökin fyrir afnámi ríkiseinokunar. Mér finnst óeðlilegt að smásöluverslun sé í höndum ríkisins og að verið sé að banna öðrum að versla með löglega vöru í stað þess að setja bara ákveðin skilyrði. Fyrst og fremst finnst mér lýðheilsurökin, sem eru svo oft tekin fram í þessu, ekki vera tæk því að þau snúa að því að við eigum að miða við það í stefnumótun ríkisins og banni og ríkiseinokun að stýra einkaneyslu fólks. Það snýst um einstaklingsfrelsi, einkaneyslan og áfengisneyslan sem hv. þingmaður talar um að muni aukast. Er það ekki hluti af einstaklingsfrelsinu að ákveða hversu mikið áfengi maður drekkur? Ef við förum að móta stefnu miðað við að draga úr því, erum við þá ekki um leið að beita okkur gegn einstaklingsfrelsinu?

Hv. þingmaður hrósaði happi yfir skoðanakönnunum. Á sínum tíma voru 64% Íslendinga á móti því að leyfa bjórinn. Mig langar til að spyrja hvort hv. þingmaður hefði komið, eins og kollegi hennar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, og hrósað happi yfir því og notað það sem rök fyrir að banna almennt sölu bjórs. Ég velti því fyrir mér hvernig þetta yrði í dag, hvort við teljum almennt að meiri hlutinn eigi ekki endilega rétt á því að stjórna einkaneyslu minni hlutans.