146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[17:04]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Jú, ég hef heyrt um John Stuart Mill sem hv. þingmaður nefnir. Hann setti það nokkuð skýrt fram í sinni frægu bók að það verði að vera takmarkanir á frelsinu, sérstaklega þegar kemur að því að skerða frelsi annarra, ekki satt? Að sjálfsögðu er það svo að stjórnvöld hljóta ávallt að hafa til þess möguleika að takmarka það frelsi sem við ræðum hér til að skerða ekki frelsi annarra.

Hv. þingmaður telur lýðheilsurökin ekki skipta máli, þ.e. að hver og einn eigi að geta ákveðið hvað hann drekkur mikið áfengi með tilheyrandi kostnaði fyrir almenna skattgreiðendur. Þar með er verið að skerða frelsi þeirra, eða hvað? Áfengisneyslan eykst með tilheyrandi samfélagslegum kostnaði fyrir þá sem þurfa að verða þolendur áfengisneyslunnar. Við getum horft til gagna sem líka er hægt að finna á heimasíðu landlæknisembættisins, þegar kemur að ofbeldisverkum, kynbundnu ofbeldi ekki síst, hve mikið af þessu ofbeldi er framið undir áhrifum áfengis. Jú, alveg ótrúlega stór hluti.

Þegar við erum að tala um áfengisneyslu og frelsi til að neyta áfengis í eins miklum mæli og við viljum hljótum við líka að velta fyrir okkur áhrifum þess á frelsi annarra. Þar held ég að við hv. þingmaður hljótum að vera sammála. Ég heyrði að hv. þingmaður var sammála mér um að við hljótum líka að gera greinarmun á verslunarfrelsi og einstaklingsfrelsi. Þessum rökum hlýtur hv. þingmaður líka að vera sammála. Eða telur hann, svo að ég kasti nú aðeins til baka á hv. þingmann, að ríkið eigi þá ekkert að koma að málum þegar kemur að mótun lýðheilsustefnu og ákveðnum takmörkunum á frelsi borgaranna? Þegar kemur að bílbeltum svo að dæmi sé tekið? Eða áfengisneyslu? Eða hvaðeina það er sem við höfum rætt hér og samþykkt, stjórnvöld hér sem og í öðrum ríkjum, til að tryggja almannahagsmuni? Auðvitað er það ákveðin takmörkun á frelsi mínu að ég þurfi að setja á mig (Forseti hringir.) bílbelti í hvert skipti sem ég fer í bíl. En ég lít svo á að í fyrsta lagi að … ég verð að koma þessu að í öðru andsvari til að virða fundarstjórn forseta.