146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[17:08]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni, þetta er auðvitað ekki mikill tími. En ég sagði ekki, og vil ekki láta leggja mér orð í munn, að ofbeldi sé óhjákvæmileg afleiðing áfengisneyslu. En ég benti á að þegar tölur um til að mynda kynbundið ofbeldi eru skoðaðar kemur áfengi miklu oftar en ekki við sögu. Það er þetta sem átt er við þegar OECD leggur fram sín gögn um að áfengi sé fimmti stærsti orsakavaldur sjúkdóma og dauðsfalla í heiminum. Þá hljótum við að velta því fyrir okkur. Þetta snýst nefnilega ekki bara um alkóhólisma, þetta snýst um heilbrigðisvandamál sem við sem samfélag borgum öll fyrir, skorpulifrina svo að dæmi sé tekið. Þess vegna eru franskir vinir mínir einmitt að dásama það að við höfum þetta takmarkaða aðgengi hér, meira að segja í Frakklandi. Hvað er franskt samfélag ekki að borga fyrir lifrarskaða? Og það sjáum við líka í þessum félagslegu vandamálum. Það er nú raunar mikil frelsisskerðing, leyfi ég mér að fullyrða, fyrir börn að alast upp á heimili þar sem er (Forseti hringir.) alkóhólismi. Ég held að við getum teygt og togað þetta hugtak ansi lengi í þessari umræðu.