146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[17:27]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður frábiður sér að vera líkt við Donald Trump, ég skil það vel, enda líkti ég engum við þann mann. Ég held að ég hafi ekki minnst á hann í orði heldur. Ég talaði um bandaríska repúblikana sem væru að afneita loftslagsbreytingum af mannavöldum, sem eru hópur sem hefur verið starfandi í stjórnmálum þar vestra talsvert lengur en blessaður forsetinn sem við sitjum uppi með, heimsbyggðin.

Mér þykir miður að þingmaðurinn hafi tekið svona til sín þær sneiðar sem ég kom með á þá sem gagnrýna vísindin. Þau orð beindust ekki sérstaklega gegn hv. þm. Viktori Orra Valgarðssyni sem ég veit að er menntaður í empírískum félagsvísindum og væntanlega voða flinkur í því öllu. Þau orð sem ég las upp hér voru hins vegar orð flutningsmannsins, hv. þm. Teits Björns Einarssonar, sem sagði að það væri varasamt að fella alla mannlega hegðun undir einfalda tölfræðilega samantekt.

Hann, svona hálfhnussandi, notaði orðin empírískar rannsóknir eins og þau væru skammaryrði og hann lagði á það ríka áherslu að tölfræðilegar bollaleggingar og karp um gildi slíkra upplýsinga myndi ekki ráða úrslitum í þessu máli.

Ég geri athugasemdir við þetta alveg eins og ég geri athugasemdir við fólk sem segir nákvæmlega sömu hluti um loftslagsbreytingar af mannavöldum. Það heyri ég að hv. þm. Viktor Orri Valgarðsson gerir ekki. Það væri kannski ráð að þeir myndu setjast saman, félagarnir, flutningsmennirnir, og ræða þetta þannig að félagsvísindamaðurinn Viktor Orri Valgarðsson gæti siðað lögfræðinginn Teit Björn Einarsson aðeins í empírískum rannsóknum og sýnt honum að þær séu ekki jafn (Forseti hringir.) illar og lögfræðingurinn virðist halda.