146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[17:36]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Jú, ég hef eitthvað skoðað umsagnir frá fyrri þingum. Ég vil nú ekki kalla sjálfan mig sérfræðing í þeim, en ætli ég verði það ekki fyrir rest eftir umfjöllun í nefndinni hér að loknum umræðum.

Auðvitað veltir maður þessu fyrir sér. Auðvitað veltir maður fyrir sér hvort — nei, mig langar ekki að gera ráð fyrir því að fólk hér inni gangi erinda einhverra, mig langar miklu frekar að halda mig við það að hér höfum við bara ólíka sýn á það hvert hlutverk ríkisins er. Hins vegar er alveg ljóst hverjir fagna þessum breytingum og hverjir ekki. Þeir sem gleðjast yfir því að einkasala ríkisins á áfengi verði afnumin sýnist mér flestir vera þeir sem hugsa sér gott til glóðarinnar að fá söluna til sín og munu þá geta styrkt stöðu sína á þeim fákeppnismarkaði sem er í matvöruverslun á Íslandi. Þeir sem eru skeptískir á málið eru u.þ.b. allir aðrir, allir sem huga að heilbrigðismálum, lýðheilsumálum, málefnum barna og fjölskyldna, fagaðilar og sérfræðingar úti um allar koppagrundir. Við þurfum að leggjast rækilega yfir þetta. Við þurfum að leggjast yfir þetta í báðum þingnefndum, þeirri sem ég sit í, allsherjar- og menntamálanefnd, og velferðarnefnd, sem hv. þm. Elsa Lára Arnardóttir situr í, því að þetta er sameiginlegt verkefni. Það væri handvömm af þinginu að hafa ekki bæði augun á velferðarþættinum í breytingum af þessum toga.