146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[17:56]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir góða ræðu og tek undir það sem hann segir um mikilvægi þess að við hlustum á fagaðila, t.d. þá sem starfa hjá SÁÁ. Ég get nefnt fleiri, eins og embætti landlæknis, fagaðila hjá Barnaheillum og fleiri aðila. Við skoðum rannsóknir á sviði heilbrigðis- og félagsvísinda og myndum okkur skoðanir, vegna þess að þarna eru fagaðilar sem unnið hafa að þessum málum og hafa sent út varnaðarorð um samþykkt þessa frumvarps. Það er óþolandi að heyra að við sem förum með þessi varnaðarorð hér í ræðustól Alþingis séum með einhvern hræðsluáróður. Við byggjum skoðanir okkar og afstöðu á upplýsingum sem fyrir hendi eru og tökum mark á þeirri tölfræði og þeim upplýsingum sem við höfum.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann út í það sem fram kemur í frumvarpinu, að hækka eigi hlutfall áfengisgjalds úr 1% upp í 5%, sem renni í lýðheilsusjóð. Þetta aukna fjármagn á eingöngu að nota í tvö ár til að vinna að forvörnum á sviði þessara mála. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvað honum finnist um þessa tímalengd, tvö ár. Telur hann að við náum einhverjum stórkostlegum árangri í forvörnum á þessu sviði á eingöngu tveimur árum? Telur hv. þingmaður ekki mögulegt að við getum sameinast, margir þingmenn, um að hækka þetta hlutfall óháð því hvort frumvarpið verður samþykkt eða ekki?