146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:07]
Horfa

Viktor Orri Valgarðsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég biðst forláts ef ég var óskýr. Þetta er hugmyndafræðileg umræða að einhverju leyti. Að mínu viti snúast stjórnmál að mörgu leyti um hugmyndafræði. Þar kemur inn að lýðheilsa er eins og ég segi samheiti yfir einstaklingsheilsu sem ætti að vera á forræði einstaklinga og við eigum að aðstoða þá frekar en hafa vit fyrir þeim.

Varðandi lyfin þá skilst mér að sé komin einhvers konar lyfjasala í t.d. Hagkaup í sérrýmum. Svo getur auðvitað hvert dæmi fyrir sig verið að vissu leyti ólíkt, lyf, bílbelti og áfengisneysla. En ég tel alla vega það eiga við í þessu máli að það séu ekki tæk rök að segja að við eigum að halda uppi ríkiseinokun á þeim forsendum að stýra neyslu einstaklinga. En mér finnst þetta með lítratalið áhugavert vegna þess að í skýrslunni margumræddu frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni kemur fram að áfengisneysla á mann t.d. á ári í Suður-Evrópu er 11,2 lítrar en á Norðurlöndunum 10,4. Samt sem áður er (Forseti hringir.) skaðsemi drykkjumenningar mun meiri á Norðurlöndunum en í hinum löndunum. Þannig að þetta er augljóslega ekki einhlítt samband myndi ég telja.