146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:14]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er þá athyglisvert að það komi fram og ég skil orð þingmannsins með þeim hætti að hann hefði varla getað gert annað á sínum tíma í ljósi þeirra varnaðarorða sem þá lágu fyrir en að taka þá afstöðu að leyfa ekki sölu bjórs. Þá greinir okkur einmitt á um það hve mikla áherslu við leggjum á það.

Ég velti því óneitanlega fyrir mér þegar við horfum á öll þau lönd í kringum okkur sem tekið hafa upp svipað fyrirkomulag og við höfum nú lagt til að verði gert að í fæstum þeirra landa er uppi mjög sterk umræða um að hverfa til þess fyrirkomulags sem við höfum nú. Það segir mér á margan hátt að þrátt fyrir allt kunni fólk ágætlega að meta valfrelsið, á sama hátt og fólk kunni ágætlega að meta valfrelsið þegar kom að bjórnum þrátt fyrir að margir sérfræðingar væru á móti því að leyfa hann og hugsanlega höfðu þeir rétt fyrir sér.