146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:22]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að sjá að hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson fylgir í einu og öllu stefnu síns flokks þegar kemur að áherslunni á lýðheilsumál og þann rauða þráð þegar kemur að málefnaskrá Viðreisnar en efling forvarna með markvissri lýðheilsustefnu er rauði þráðurinn í stefnu flokksins. Það væri óskandi að aðrir þingmenn þess sama flokks gerðu slíkt hið sama. Ég er líka ánægð með að heyra að hún muni ekki veita frumvarpinu atkvæði sitt. Engu að síður langar mig til að spyrja hv. þingmann út í orð hennar um það að hún tali fyrir sátt í málinu eða samvinnu þar sem reynt verði að afnema einkaleyfi ríkisins á sölu áfengis í verslanir.

Ég velti því fyrir mér hvernig þessi samvinna og sátt samrýmist áherslu hennar á lýðheilsu og forvarnir. Við vitum það öll sem höfum kynnt okkur þetta mál að það er svo sannarlega nauðsynlegt, til þess að lýðheilsa og forvarnir og ábyrg lýðheilsustefna nái fram að ganga, að sala á áfengi verði í höndum ríkisins og þar með í höndum ábyrgs aðila. Með því tryggjum við að áfengi og aðgengi að áfengi sé haft undir eftirliti og sölu ábyrgs aðila og að sala á þeim ágæta varningi, sem er ekki eins og annar neysluvarningur, sé undir ákveðnum hömlum.

Ég velti því fyrir mér hvernig þetta tvennt samræmist, annars vegar þessi sannfæring hv. þingmanns í lýðheilsumálum, sem hér kemur fram í ræðu hennar og afstöðu til málsins, og hins vegar það sem hún talar um á sama tíma, þ.e. að reynt verði að ná sátt í málinu með því að afnema einkaleyfi ríkisins á sölu áfengis í verslanir.