146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:25]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir hennar svar. Ég kem þá frekar að því aukna álagi sem ljóst er að mun lenda á löggæslunni og heilbrigðiskerfinu með því að gefa áfengissöluna frjálsa. Aukið álag verður á löggæsluna og heilbrigðiskerfið, og heilbrigðiskerfið sem hefur verið fjársvelt síðustu árin er ekki í stakk búið til að mæta því aukna álagi. Ég velti því fyrir mér hvort afnám einkaleyfis ríkisins borgar sig og samræmist þeim áherslum sem hafa kristallast í orðum og áherslum hv. þingmanns þegar kemur að ábyrgri heilbrigðisstefnu út frá lýðheilsusjónarmiðunum. Ég velti fyrir mér hvort hún geti þar með stutt einhvers konar sátt, eins og hún talar um, um að reyna að afnema einkaleyfi ríkisins þegar viðbúið er að aukið álag verður á heilbrigðiskerfið og heilbrigðisstarfsfólk og að raunveruleg lýðheilsustefna verður undir.