146. löggjafarþing — 36. fundur,  28. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[18:26]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Takk fyrir. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir andsvarið. Ég viðurkenni að ég átta mig ekki alveg á spurningunni eða fullyrðingum um aukið álag á löggæslu og á heilbrigðisstéttina við það skref að færa smásöluna með takmörkunum af hendi ríkisins yfir til einkaaðila. Álagið á eftirlitið (RBB: Samkvæmt frumvarpinu þá eigi lög …) — ég er ekki að tala um frumvarpið, ég var bara að tala um að nefndarvinnan fæli í sér að skoða þessi mál. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÞórE): Forseti biður þingmenn um að gæta þess að vera ekki hér í einkasamtölum.)

Ég biðst forláts, hæstv. forseti. Í fullri alvöru þá er hægt, eins og ég sé þetta, að fara ýmsar leiðir í að ná samstöðu um takmarkanir sé vilji fyrir hendi. Ég sé lögregluna ekki fyrir mér standa við dyragættina í hverri verslun frekar en hún gerir annars staðar þar sem smásala er takmörkunum háð. Ég nefni lyfjaverslanir sem dæmi. Það eru einfaldlega settar reglur og við brot á þeim reglum eru sett viðurlög. Eins og ég nefndi áðan tel ég fjölmörg dæmi sýna að einkaaðilar hafa meiri hvata til að standa við slíkar takmarkanir.

Ég árétta að ég myndi vilja sjá tilraun gerða til að ná lendingu í þessu máli á þennan hátt og myndi gjarnan vilja sjá nefndina, þegar og ef þetta gengur til nefndar, skoða það mál.